Vinna verður hratt og örugglega að áætlun
Höfuðmáli skiptir að vinna hratt og örugglega að aðgerðaráætlun í öllum helstu málaflokkum svo samþykkt þingsályktunartillögu um framkvæmd borgarstefnu verði ekki bara orðin tóm og marklaust plagg. Þetta segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri.
Ályktunin var samþykkt á Alþingi á dögunum, eins og akureyri.net hefur greint frá, og er ætlað að stuðla að þróun og eflingu tveggja borgarsvæða á Íslandi; annars vegar að styrkja höfuðborgina Reykjavík og nágrenni, hins vegar að skilgreina Akureyri sem svæðisborg, efla hana sem slíka, hlutverk hennar og hið virka svæði.
- HVAÐ ER SVÆÐISBORG?
Þéttbýlisstaður með sjálfbæra atvinnustarfsemi og þjónustu á flestum sviðum daglegs lífs þar sem almenningur hefur tækifæri til að njóta fjölbreyttrar menntunar, menningar og mannlífs og greiðra samgangna milli landshluta og til útlanda. Búsetukostir og þjónusta fyrir íbúana og þau sem búa á aðliggjandi svæðum verði meiri en í landshlutakjörnum og öðrum smærri þéttbýlisstöðum.
Til heilla fyrir landið allt
„Það er mikið ánægjuefni og markar tímamót í sögu lands og þjóðar að samþykkt hafi verið á Alþingi að framfylgja eigi ítarlegri borgarstefnu fyrir höfuðborgina Reykjavík og svæðisborgina Akureyri. Með því er lögð áhersla á að ríkið horfi til uppbyggingar á tveimur borgarsvæðum í landinu sem verður til heilla fyrir landið allt,“ segir Ásthildur í grein sem birt var á Vísi í gær.
„Bæjarstjórn Akureyrar er reiðubúin að leggja af mörkum alla þá vinnu sem þarf svo raungera megi þá miklu uppbyggingu sem tíunduð er í borgarstefnunni,“ segir bæjarstjórinn.
Ásthildur segir m.a. í greininni:
- Öflugt atvinnulíf er algjör forsenda þess að hægt sé að þróa öflugt borgarsvæði.
- Styrkja þarf stöðu Sjúkrahússins á Akureyri, klára uppbyggingu þess og gera að háskólasjúkrahúsi með auknu samstarfi við Háskólann á Akureyri.
- Um leið er nauðsynlegt að auka námsframboð á háskólastigi með fjölgun námsgreina.
- Treysta þarf millilandaflugið sem grundvöll fyrir öflugri ferðaþjónustu og betri lífsgæðum fyrir íbúa. Beint flug verði alla daga vikunnar allan ársins hring til annarra Evrópulanda
- Hækka þarf framlög til menningarsamnings Akureyrarbæjar og ríkisvaldsins.
„Við horfum ótrauð og full sjálfstrausts fram á veginn því Akureyri hefur alla möguleika til þess að vaxa og eflast enn frekar,“ segir Ásthildur og hvetur alþingismenn, „þvert á flokka, til að vinna með ráðum og dáð að framgangi borgarstefnunnar. Hér hefur verið stigið stórt skref sem ég er fullviss um að verður okkur öllum til góðs.“