Fara í efni
Fréttir

Akureyri skilgreind sem svæðisborg

Skilgreint borgarsvæði Akureyrar nær yfir Eyjafjörð allan, frá Siglufirði í vestri, austur til Húsavíkur og Mývatnssveitar, í grófum dráttum eins og sýnt er innan græna kassans á kortinu. Skjáskot af map.is.

Alþingi samþykkti í liðinni viku þingsályktunartillögu innviðaráðherra um Borgarstefnu fyrir árin 2025-2040. Bæjarráð Akureyrar fagnar samþykkt tillögunnar og leggur áherslu á að sveitarfélagið sé reiðubúið að taka virkan þátt í vinnu við gerð aðgerðaáætluna.

Akureyri breytist þó hvorki í dag né á morgun þó samþykkt hafi verið þingsályktunartillaga um svæðisborgina Akureyri. Alþingi hefur hins vegar formlega falið ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd borgarstefnu og að innviðaráðherra komi á formlegum samstarfsvettvangi ríkisins og borgarsvæðanna út frá lykilviðfangsefnum í fimm flokkum.

Borgarstefna verði hluti af samhæfingu stefna

Með þingsályktunartillögunni felur Alþingi ríkisstjórn að vinna að framkvæmd bogarstefnu, að hún verði hluti af samhæfingu stefna í samgöngumálum, byggðamálum og málefnum sveitarfélaga, ásamt því að taka mið af samþykktum stefnum stjórnvalda á öðrum málefnasviðum. Þá verði loftslagsmál og sjálfbær þróun höfð að leiðarljósi við útfærslu á markmiðum borgarstefnu og þeim aðgerðum og framkvæmdum sem stefnan kann að leiða til.

Borgarstefnunni er ætlað að stuðla að þróun og eflingu tveggja borgarsvæða á Íslandi, annars vegar með því að styrkja höfuðborgina Reykjavík, höfuðborgarsvæðið og hið virka svæði þess, og hins vegar að skilgreina Akureyri sem svæðisborg, efla hana sem slíka, hlutverk hennar og hið virka svæði.

Sérstaða og hlutverk svæðisborgar viðurkennt

Hvað Akureyri varðar felst þetta meðal annars í því að sérstaða og hlutverk svæðisborgarinnar verði viðurkennt ásamt mikilvægi hennar fyrir alþjóðlega samkeppnishæfni landsins og sjálfbæra þróun, búsetu og lífsgæði á Norðurlandi öllu og austur um land.

Borgarsvæði Akureyrar er skilgreint sem Eyjafjörður frá Siglufirði í vestri og austur til Húsavíkur og Mývatnssveitar.

Í sem stystu máli er skilgreinin svæðisborgar þessi, samkvæmt þingsályktunartillögunni: „Þéttbýlisstaður með sjálfbæra atvinnustarfsemi og þjónustu á flestum sviðum daglegs lífs þar sem almenningur hafi tækifæri til að njóta fjölbreyttrar mennt unar, menningar og mannlífs og greiðra samgangna milli landshluta og til útlanda. Búsetukostir og þjónusta fyrir íbúana og þau sem búa á aðliggjandi svæðum verði meiri en í landshlutakjörnum og öðrum smærri þéttbýlisstöðum.“

Fimm flokkar lykilviðfangsefna

Lykilviðfangsefni sem borgarstefnunni er ætlað að taka til og verði unnið að í virku samstarfi ríkis og viðkomandi sveitarfélaga, þannig að tryggt verði að framtíðarsýn stefnunnar verði að veruleika eru flokkuð í fimm meginflokka:

  • a. Atvinnulíf, fjárfestingar og nýsköpun.
  • b. Alþjóðleg samkeppnishæfni.
  • c. Innviðir og umhverfi.
  • d. Heilbrigðis- og félagsmál.
  • e. Menntun og menning.

Innviðaráðherra verður falið að koma á formlegum samstarfsvettvangi ríkisins og borgarsvæðanna sem stuðli að því að markmiðum borgarstefnunnar verði náð.

Ítarleg greinargerð er með þingsályktunartillögunni þar sem farið er yfir hvern þessara þátta fyrir sig.

Þingsályktunartillöguna og greinargerðina má nálgast á vef Alþingis - sjá hér

Einnig er fjallað um svæðisborgina Akureyri á vef Akureyrarbæjar - sjá hér.