Vilja tryggingu eða kaup eignar í Miðholti

Eigendur húss við Miðholt fara fram á tryggingu upp á 108 milljónir, eða að Akureyrarbær eða verktaki kaupi af þeim eignina, vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga og byggingarframkvæmda sunnan Miðholts. Þetta kemur fram í athugasemd íbúa við auglýsta breytingu á deiliskipulagi með áorðnum breytingum sem gerðar hafa verið í skipulagsferlinu.
Eins og Akureyri.net hefur áður fjallað um felur breytingin í sér að lóðir 1, 3, 5, 7 og 9 við Miðholt verði sameinaðar í eina lóð og heimilt verði að byggja þar fimm þriggja hæða fjölbýlishús í stað tveggja hæða, sem þýðir fjölgun íbúða úr 30 í 54. Breytingin felur einnig í sér heimild fyrir bílakjallara í stað þess að öll bílastæði verði ofanjarðar. Gert er ráð fyrir 50 bílastæðum í kjallaranum þannig að meirihluti íbúða eigi þar stæði. Innakstur verður frá Langholti, sem er breyting frá upphaflegri tillögu.
Meirihluti skipulagsráðs leggur til við bæjarstjórn að tillaga um breytingu á deiliskipulagi Holtahverfis norður verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar hafa verið í skipulagsferlinu. Jón Hjaltason greiddi atkvæði gegn afgreiðslu skipulagsráðs og ítrekar fyrri bókun þar sem hann nefnir meðal annars að ásókn verktaka í græn svæði valdi stundum öfgafullri þéttingu byggðar.
Bæjarstjórn samþykkti framlagða skipulagslýsingu vegna breytingar á skipulagi með breytingum frá skipulagsráði á fundi 18. júní í fyrra. Tuttugu athugasemdir bárust frá íbúum á svæðinu þegar skipulagslýsingin var kynnt. Skipulagslýsingin með áorðnum breytingum fer nú frá skipulagsráði til bæjarstjórnar til endanlegrar afgreiðslu.
Trygging eða uppkaup
Akureyri.net hefur áður sagt frá mótmælum íbúa við Miðholt og Stafholt sem fram komu þegar Akureyrarbær auglýsti fyrst tillögu að breytingu á skipulagi í fyrrasumar sem fól í sér að heimila þriggja hæða byggingar sunnan Miðholts, í stað tveggja eins og áður var leyfilegt samkvæmt aðalskipulagi.
Fjölgun íbúða, hækkun um eina hæð, skert sýn til suðurs og umferðarþungi voru á meðal þeirra atriða sem fram komu í mótmælum íbúanna. Þá var stjórnsýslan við vinnslu breytinganna gagnrýnd, bent á að hagsmunum og lífsgæðum íbúa væri fórnað fyrir hagsmuni og lífsgæði annarra, áformin þýði breyttar forsendur fyrir búsetuvali, fleiri þurfi að fara yfir fjölfarnar umferðargötur, til dæmis á leið í og úr skóla, auk þess sem farið var fram á íbúakosningu um breytingarnar.
Skjáskot úr skipulagslýsingu. Fjær má sjá fjölbýlishúsin við Undirhlíð 1-3, en húsin neðst í hægra horninu eru við Miðholt og Stafholt.
Eigendur og íbúar tveggja húsa við Miðholt og Stafholt ítrekuðu umsagnir sínar og mótmæli þegar endurskoðuð tillaga var auglýst fyrr í sumar. Þar lýsa íbúar meðal annars áhyggjum vegna jarðvegs á svæðinu og áhrifum framkvæmdanna á byggingar sem næst standa. Bent er á að þarna sé mýrlendi og djúpt niður á fast, sem gæti skapað margs konar vandamál á byggingartíma og í framtíðinni.
Í annarri athugasemd íbúa á svæðinu við nýjustu tillöguna er meðal annars farið fram á tryggingu upp á 108 milljónir fyrir húsinu, eða að Akureyrarbær eða verktakinn kaupi húsið.
Óháð eftirlit með jarðvegsframkvæmdum
BB byggingar ehf. er lóðarhafi og við afgreiðslu skipulagsráðs lágu meðal annars fyrir svör lóðarhafa vegna innsendra athugasemda þegar skipulagstillagan var fyrst auglýst.
„Áður en framkvæmdir hefjast verða unnar jarðvegsrannsóknir á svæðinu. Komið verður fyrir föstum mælipunktum til að fylgjast með hvort land hreyfist á framkvæmdatíma,“ segir meðal annars í svari lóðarhafa og bent á að eftirlit með jarðvegsframkvæmdum verði í höndum óháðra aðila.
Um útsýni segir lóðarhafinn: „Ekki er hægt að eiga útsýni, né búast við því að búa innan sveitarfélags sem í gegnum áranna rás tekur engum breytingum.“
Um umferð á byggingartíma segir lóðarhafinn að óskað verði eftir því við Akureyrarbæ að fá afnot af svæði sunnan lóða á meðan á framkvæmdum stendur - svæði þar sem samkvæmt skipulaginu á að koma leiksvæði og göngustígar í framtíðinni - ásamt því að fá leyfi fryrir innkeyrslum frá Langholti og Krossanesbraut til bráðabirgða.
Ásókn verktaka, öfgafull þétting
Við afgreiðslu skipulagsráðs á breyttri tillögu þann 12. mars á þessu ári greiddi Jón Hjaltason (óflokksbundinn) atkvæði gegn ákvörðun skipulagsráðs og bókaði þá meðal annars að um stórvægilega breytingu frá gildandi deiliskipulagi væri að ræða, eins og bent hafi verið á í athugasemdum.
Þá benti Jón einnig á að ásókn verktaka í græn svæði valdi mikilli, og á stundum öfgafullri, þéttingu byggðar, auk þess sem uppi væru efasemdir um jarðvegseiginleika á svæðinu. Hann taldi því réttast að falla frá hugmyndum um fjölgun íbúða, frekar ætti að fækka þeim eða falla jafnvel alveg frá áformum um byggingarframkvæmdir sunnan Miðholts. Jón greiddi einnig atkvæði gegn síðustu afgreiðslu skipulagsráðs.
Trjágróður, göngustígar og leiksvæði
Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars: „Gera má ráð fyrir mun minna ónæði verði af umferð við Miðholt af þeim 54 íbúðum sem áætlaðar eru í tillögunni, í samanburði við þær 30 íbúðir sem leyfðar eru í núverandi skipulagi.“
Miðholt, horft til austurs af göngustíg milli Hörgárbrautar og Langholts. Trjágróðurinn til hægri á myndinni mun að verulegu leyti víkja vegna fyrirhugaðra byggingarframkvæmda, en hugsanlegt að einhver trjánna verði færð til suðurs þar sem gert er ráð fyrir leiksvæði milli nýbygginganna og fjölbýlishúsanna við Undirhlíð 1 og 3. Myndin er tekin sumarið 2024. Mynd: Haraldur Ingólfsson.
Nokkuð er um hávaxin tré á svæðinu (sjá mynd) og er gert „ráð fyrir að stærstur hluti trjágróðurs á svæðinu muni víkja, en einnig er sá möguleiki fyrir hendi að einhver tré yrðu færð sunnar á reitinn, þar sem gert er ráð fyrir leiksvæði og gangstígum í bæjarlandinu…“ Í breyttri skipulagstillögu er sett kvöð um trjágróður á lóðunum og gert ráð fyrir góðum tengingum lóða við leik- og útivistarsvæði sem áætlað er sunnan þeirra, á opnu svæði milli umræddra lóða og fjölbýlishúsanna við Undirhlíð 1 og 3.