Fara í efni
Fréttir

Vilja rífa Borgarbíó og JMJ og byggja sex hæða hús

Húsin sem hugmyndir eru um að byggja þar sem JMJ og Borgarbíó eru nú. Hvíta byggingin í fjarska lengst til vinstri er Ráðhús bæjarins.

Hugmyndir eru uppi um mikla breytingu í norðurhluta miðbæjar Akureyrar, þar sem nú eru Gránufélagsgata 4 (JMJ húsið), Hólabraut 12 (Borgarbíó) og Geislagata 7 (Hótel Norðurland).

Skipulagsráð Akureyrar tók í vikunni jákvætt í hugmyndir sem Björn Ómar Sigurðsson hjá BB Byggingum ehf. og Haraldur Árnason hjá H.S.Á teiknistofu hafa kynnt.

Hugmyndirnar ganga í stuttu máli út á að fjarlæga bæði Hólabraut 12 (Borgarbíó) og Gránufélagsgötu 4 (JMJ) og að á lóðunum verði byggð allt að sex hæða hús með inndreginni efstu hæð. Einnig að Geislagata 7 verði jafn há. Félagið BB Byggingar hafði áður keypt hús Borgarbíós, eins og Akureyri.net greindi frá á sínum tíma, en í kynningunni kemur fram að félagið hafi einnig keypt Gránufélagsgötu 4, með sérstöku samkomulagi við eigendur JMJ.

Samkvæmt kynningunni yrðu verslanir og þjónusta á fyrstu hæð húsanna en á efri hæðum allt að 70 íbúðir.

Að auki óska BB Byggingar og H.S.Á teiknistofa eftir því að byggja bílastæðahús á tveimur hæðum vestan við umrædd hús, þar sem nú er stórt bílastæði. Núverandi stæði myndu að mestu halda sér en 80 stæðu yrðu í húsinu, sem myndu tilheyra húsunum tveimur við Hólabraut og Gránufélagsgötu.

Fram kemur í kynningu að verði tekið jákvætt í hugmyndirnar sé einnig óskað eftir því að fá leyfi til að hækka húsin við Glerárgötu 7 – Sjallann – og Geislagötu 5, þar sem Arion banki var síðast til húsa, þannig að þau verði sex hæðir.

Smellið hér til að sjá fleiri myndir úr kynningunni.

Hvíti kassinn lengst til hægri er Vínbúðin og litla hvíta húsið efst er Hólabraut 13 þar sem RUV er m.a. til húsa.

Tvö ný hús! Horft til suðausturs frá horninu við Vínbúðina; þarna eru nú JMJ húsið og Borgarbíó. Þriðja nýja byggingin, sem óskað er eftir leyfi til að reisa, er bílastæðahúsið hægra megin, þar sem nú er bílastæði. Hvíti kassinn vinstra megin við nýju húsin er Sjallinn.