Fara í efni
Fréttir

Vilja reisa þjónustuhús og minigolfvöll

Hugmyndin er að útbúinn verði minigolfvöllur og komið fyrir aðstöðuhúsi á svæðinu innan rauða rammans á myndinni, þar sem leikskólinn Pálmholt stóð á sínum tíma. Sviflínurnar eru í Glerárgili, upp til vinstri frá starfsstöð fyrirtækisins. Kort: Loftmyndir ehf.

Fyrirtækið Zipline Akureyri ehf., sem rekur sviflínuafþreyingu í Glerárgili, hefur áform um að setja upp minigolfvöll og þjónustuhús á starfsstöð sinni við Þingvallastræti 50. Skipulagsráð Akureyrar tók jákvætt í fyrirspurn þess efnis á dögunum og samþykkti að grenndarkynna erindið.

Zipline Akureyri ehf. hefur undanfarin ár boðið upp á sviflínubrautir á fimm stöðum yfir Glerárgil og haft aðstöðu þar sem leikskólinn Pálmholt var um áratugaskeið. Gamla leikskólahúsið hefur verið rifið og hugmynd fyrirtækisins er að settur verði upp minigolfvöllur á malarsvæðinu þar sem húsið stóð. Jafnframt óskar fyrirtækið eftir því að setja niður 30 fm aðstöðuhús með verönd og salernisaðstöðu, við fyrirhugaðan minigolfvöll. Húsið kæmi á undirstöður sem þegar eru til staðar, eftir að skrifstofuhúsnæði leikskólans var fjarlægt.

Eins og áður segir tók skipulagsráð jákvætt í erindið og samþykkti að grenndarkynna það. „Forsenda uppbyggingar er að gefið verði út byggingarleyfi fyrir húsinu og að útbúinn verði tímabundinn lóðarleigusamningur með uppsagnarákvæði. Þar sem umrætt svæði er skilgreint sem íbúðarsvæði í aðalskipulagi þarf húsið að vera færanlegt,“ segir í bókun ráðsins.