Fara í efni
Fréttir

Vilja minnisvarða um síðutogara og sjómenn

Óskað hefur verið eftir leyfi til að setja upp minnisvarða um sögu síðutogara og síðutogarasjómenn á Íslandi á svæði við menningarhúsið Hof. Fjallað var um málið á fundi skipulagsráðs Akureyrar í gær og skipulagsfulltrúa falið „að hefja samtal við umsækjanda um hvort að ekki finnist aðrir möguleikar á staðsetningu minnisvarðans, í samráði við þjónustu- og menningarsvið og umhverfis- og mannvirkjasvið,“ eins og segir í fundargerð.

Meðfylgjandi mynd er af fyrirhuguðum minnisvarða. Um hann segir í umsókninni frá Sigfúsi Ólafi Biering Helgasyni, fyrir hönd hóps sem vinnur að verkefninu:

  • Minnismerkið er allt gert úr stáli smíðað í Slippstöðinni á Akureyri.
  • Áferð minnismerkisins verður áþekkt minnismerkinu um „síldarstúlkurnar“ sem stendur á bryggjusporði framan við Róaldsbraggann á Siglufirði.
  • Lýsing minnismerkisins er í hönnun en stefnt er að það kom lýsing bæði neðan frá sem og að ofan.
  • Til hliðar við minnismerkið er gert ráð fyrir söguskilti á að minnsta kosti Íslensku og ensku og jafnvel þýsku.
  • Minnismerkið hvílir bara á malarpúða og er aðeins á lofti borið upp af bobbingum sem ná í gegnum ölduna sem merkið myndar.
  • Hugmynd okkar er að í útjaðri merkisins verði sætisbekkur.