Fara í efni
Fréttir

Varnir styrktar á Oddeyri eftir sjávarflóð

Mikið tjón varð víða á Oddeyri í óveðrinu í fyrrahaust. Neðst við Strandgötu var skarð rofið í götu og gangstétt til að losna við vatn sem fyllti götur, því ræsi höfðu ekki undan. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Vinna er þegar hafin við að styrkja varnir þar sem sjávarflóð gekk á land á Oddeyrinni í lok september í fyrra og olli verulegu tjóni á nokkrum stöðum, til að mynda stórtjóni hjá Blikk- og tækniþjónustunni. Nú þegar er búið að gera vörn til bráðabirgða á 150 metra löngum kafla, þar sem megnið af sjónum gekk á land, frá Strýtuhúsinu og suður að Oddeyrarbryggju.

Efling fráveitukerfis til skoðunar

Hér er ekki um stórt verkefni að ræða að sögn Andra Teitssonar, formanns umhverfis- og mannvirkjaráðs, það er að fylla upp í það svæði sem um ræðir. Hann segir þó einnig hugsað til lengri tíma og athugað hvort efla þurfi fráveitukerfið á tilteknu svæði sunnarlega á Oddeyrinni og mögulega að endurskilgreina hæðarsetningu húsa sem verða byggð þar í framtíðinni.