Fara í efni
Fréttir

Varað við hvassviðri á Þorlák og aðfangadag

Unnendur hvítra jóla verða að öllum líkindum fyrir vonbrigðum þetta árið, að minnsta kosti með þann hluta jólahátíðarinnar sem snýr að snjó og hvíta litnum. 

Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula veðurviðvörun fyrir Norðurland eystra frá kvöldi Þorláksmessu fram á aðfangadagsmorgun og svo appelsínugula viðvörun í framhaldi af því á aðfangadag. Litlar sem engar líkur eru á hvítum jólum því hiti verður yfir frostmarki, hlýjast á aðfangadag þegar búist er við tíu gráðu hita með sunnan storminum. Búast má við talsverðri röskun á samgöngum í lofti og á landi, sérstaklega á Tröllaskaga og við Eyjafjörð.

Sunnan stormur og hlýindi

Veðurstofan spáir hvössum sunnanvindi á Þorláksmessu, 15-23 metrum á sekúndu, og vindhviðum sem geta farið yfir 30 m/sek. við fjöll. Slíkur vindur getur verið varasamur fyrir ökutæki, einkum þau sem eru viðkvæm fyrir vindi. Þá geta lausamunir fokið.

Ekki batnar ástandið þegar komið er fram á aðfangadag því þá breytist guli liturinn í appelsínugulan og gildir sú viðvörun kl. 9-16 á aðfangadag, þar sem búist er við enn hvassari sunnanvindi, 18-28 metrum á sekúndu. Hvassast verður í veðri vestan til á svæðinu. Vindhviður geta þá farið yfir 40 m/sek. við fjöll. Hættulegt verður að ferðast vegna vinds og þá sér í lagi á ökutækjum sem eru viðkvæm fyrir vindi, eins og það er orðað hjá Veðurstofu Íslands. Þá er líklegt að lausamunir fjúki og foktjón mögulegt. Áfram er síðan gul viðvörun til miðnættis á aðfangadagskvöld og talsverður vindur fram á jóladag.

Sjálfvirk veðurspá næstu daga fyrir veðurstöðina við Krossanesbraut. Skjáskot af vedur.is.

Veðurviðvaranir verða einnig í gildi fyrir önnur landsvæði og hægt að lesa um þær á vef Veðurstofu Íslands, vedur.is.

Hvetja byggingaverktaka til dáða

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur birt pistil á Facebook-síðu sinni þar sem vakin er athygli á ofangreindum veðurviðvörunum. Lögreglan bendir á að gangi veðurspá eftir megi búast við talverðri röskun á samgöngum, bæði í lofti og á jörðu niðri. Það eigi sérstaklega við um Tröllaskaga og Eyjafjarðarsvæðið þó svo íbúar víða á Norðurlandi eystra verðir varir við þennan storm sem er í aðsigi. 

„Hvetjum við því alla að huga að ferðum sínum í takt við þessar upplýsingar sem og að fylgjast mjög vel með stöðunni hverju sinni, m.a. á síðum Veðurstofunnar og Vegagerðarinnar. Að svo komnu viljum við biðja byggingarverktaka að huga vel að þessu á sínum byggingasvæðum áður en í jólafrí verður haldið svo að ekki þurfi að kalla til mannskap yfir hátíðirnar til reddinga og frágangs á byggingarefnum og vinnupöllum og þá einnig til að koma í veg fyrir slys og tjón,“ segir meðal annars í viðvörun lögreglu.