Upplýsingaverksmiðja en ekki „gervigreind“

„Vandamálið er ekki tæknin sjálf, heldur nafnið sem við gáfum henni. Og það er kominn tími til að kalla hlutina réttum nöfnum.“
Þetta segir Magnús Smári Smárason, verkefnastjóri gervigreindar við Háskólann á Akureyri, í nýjum pistli um gervigreind.
Hann segir að gervigreind sé í raun ekki „gervigreind“ heldur sé um að ræða upplýsingaverksmiðjur. Afurð verksmiðju af því tagi sé ekki sannleikur eða viska, heldur fjöldaframleidd upplýsingavara: texti, tölvukóði, myndir.
Að tileinka sér rétta orðnotkun og í kjölfarið viðeigandi hugsun hefur fjórar afgerandi afleiðingar, segir Magnús Smári, m.a. þá að goðsagnahjúpurinn af tækninni sé rofinn og óttinn við „ofurgreind“ minnki. „Í öðru lagi skýrir það ábyrgð. Við hættum að spyrja „hvað vill gervigreindin?“ og byrjum að spyrja réttu spurninganna: Hver eiga verksmiðjurnar? Hver setja reglurnar um framleiðsluna? Hver græða? Ábyrgðin er ekki hjá óljósu „skýi“ heldur hjá raunverulegum fyrirtækjum og fólki.“
Pistill Magnúsar Smára: Ekki „gervigreind“ heldur upplýsingaverksmiðjur