Fara í efni
Fréttir

Ungi maðurinn var að renna sér niður brekku

Framhaldsskólinn á Laugum. Mynd af vef skólans.

Ungi maðurinn sem lést í slysi við Framhaldsskólann á Laugum í gær var að renna sér í snjó niður brekku við skólann með félögum sínum, með þeim afleiðingum að hann varð fyrir bíl. Vísir greindi frá því í morgun.

Aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Húsavík segir við Vísi að slysið hafi orðið neðan við skólabygginguna á Laugum. Nokkur ungmenni hafi verið að leik í snjónum í brekku vestan við skólann, pilturinn hafi runnið út á Austurhlíðarveg, sem liggur að skólanum, og orðið fyrir bílnum.

Á vef Fréttablaðsins kemur fram í morgun að ökumaður bílsins sé hvorki grunaður um of hraðan akstur né saknæmt athæfi. Heimildarmenn Fréttablaðsins segja að um „ó­trú­lega sorg­lega ó­heppni“ hafi verið að ræða. Útivistardagur var í skólanum í gær og margir urðu vitni að slysinu. Öllum var boðin áfallahjálp, bænastund var á Laugum í gærkvöldi og frí er í skólanum í dag.

Ungur maður varð fyrir bíl og lést