Fara í efni
Fréttir

Undrast mjög kröfu ríkisins um Grímsey

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, undrast kröfu fjármálaráðuneytisins fyrir hönd ríkisins þess efnis að drjúgur hluti Grímseyjar verði talinn þjóðlenda og þar með eign ríkisins. Eyjan hefur verið hluti Akureyrarkaupstaðar í hálfan annan áratug.

Akureyrarbær fékk að vita af kröfunni í gær. 

„Þetta slær mig ekki sérstaklega vel, ég skil reyndar ekki alveg hvað þetta á að fyrirstilla,“ segir Ásthildur við Akureyri.net

„Lögfræðingar okkar eru að skoða þetta, við þurfum að kanna hvort og þá hverjir eiga þetta land sem um er að ræða,“ segir bæjarstjórinn. „Við fáum góðan tíma til að kanna allar hliðar þessa máls og munum senda inn okkar athugasemdir eftir að hafa gert það vandlega.“

Athugasemdir þurfa að berast óbyggðanefnd fyrir 15. maí.