Fréttir
Umferð hleypt á hringtorgið við Lónsá
03.10.2025 kl. 08:30

Myndir: Þorgeir Baldursson
Umferð var í gær hleypt á hringtorgið við Lónsbakka, á mótum Akureyrar og Hörgársveitar. Hér eftir verður umferðin með eðlilegum hætti, þ.e.a.s. „tvístefna og ökumenn aka því „eðlilega“ eftir þjóðveginum og í gegnum hringtorgið og gatnamótin við Lónsveg,“ sagði í tilkynningu frá Nesbræðrum, aðalverktökum við framkvæmdina.
Búið er að malbika helminginn af hringtorginu, en ekki þann hluta sem ekinn er á leið til Akureyrar – með aksturstefnu til suðurs. „Því eru hæðarbreytingar í miðju hringtorginu sem þarf að varast,“ segir í tilkynningunni.

Gátskildir og stikur verða áfram á svæðinu þar sem enn er unnið er að hellulagningu og kantsteinum. Því verður þrengt að akstursleiðinni, eins mikið og hægt er til verja mannskapinn og búa til vinnusvæði.
Í tilkynningu Nesbræðra segir að í þessum þriðja og síðasta áfanga verksins verði lokið við allan yfirborðsfrágang:
- Gangstéttar við Lónsveg og við aðkomuveg að ÁK smíði.
- Lýsing og malbik verður sett á göngustíginn upp að Álfasteini
- Klárum malbikun á hringtorginu sjálfu ásamt vegriði.
„Þrátt fyrir að vera komin í síðasta fasann er drjúgur lokaspretturinn og mega vegfarendur búast við umferðatöfum eins og hefur verið þegar ekið er í gegnum svæðið. Við biðlum því enn til ykkar að sýna aðgát, anda ofan í maga og njóta þess að aka í gegnum svæðið rólega, brosa til okkar og gleðjast yfir því að brátt verða þessi gatnamót töluvert öruggari en þau voru.“
- Frétt akureyri.net á þriðjudaginn:
Hringtorg við Lónsá tekur á sig mynd