Fara í efni
Fréttir

„Þriðja kynslóðin“ – Magnús áfram með KA

Magnús Jónatansson, fyrirliði bikarmeistara ÍBA i knattspyrnu 1969, Jónatan Þór Magnússon og Magnús Dagur Jónatansson.

Magnús Dagur Jónatansson skrifaði á dögunum undir nýjan þriggja ára samning við handknattleiksdeild KA.

„Eru þetta afar jákvæðar fréttir en Magnús sem er 17 ára gamall er einn efnilegasti leikmaður landsins og nú þegar kominn í stórt hlutverk í meistaraflokksliði KA,“ segir á heimasíðu félagsins.

„Magnús er hluti af hinum gríðarlega sigursæla 2006 árgangi hjá KA en strákarnir töpuðu ekki leik í þau tvö ár sem þeir léku í 4. flokki og hömpuðu loks sigri á Partille Cup sem er stærsta handboltamót heims,.“ segir jafnframt. Magnús og félagar fögnuðu sigri í bikarkeppni 3. flokks í Laugardalshöll um síðustu helgi.

Magnús Dagur er fyrirliði landsliðs 18 ára og yngri „en hann býr yfir miklum leiðtogahæfileikum auk þess sem hann er mikill liðsmaður. Í janúar fékk hann Böggubikarinn en hann er veittum einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi,“  segir á heimasíðu KA.
     _ _ _

  • Akureyri.net sagði á dögunum frá Nóel Atla Arnórssyni, sem þreytti frumraun sína með knattspyrnuliði Álaborgar í Danmörku, og fetar þar með í fótspor föður síns og afa sem báðir voru afreksmenn í handbolta.
  • Faðir Magnúsar Dags og afi voru einnig afreksmenn í íþróttum; afinn, Magnús Jónatansson, er einn besti knattspyrnumaður sem Akureyringar hafa eignast og Jónatan Þór Magnússon, faðir Magnúsar Dags, er í hópi besti handboltamanna Akureyrar.
  • Magnús Dagur er líka af þriðju kynslóð fyrirliða; afi hans var fyrirliði Íþróttabandalags Akureyrar, sameiginlegs liðs Þórs og KA, þegar liðið varð bikarmeistari í knattspyrnu árið 1969 og fyrirliði Þórsliðsins þegar það vann sér sæti í efstu deild haustið 1976, tveimur árum eftir að Akureyrarfélögin fóru að leikja hvort undir sínu merki. Jónatan var fyrirliði handboltaliðs KA um tima, svo og fyrirliði Akureyrar - handbolta, sameiginlegs liðs KA og Þórs. Magnús Dagur er fyrirliði U18 landsliðs Íslands eins og áður kom fram.
    _ _ _

Jón Heiðar Sigurðsson og Magnús Dagur Jónatansson handsala samninginn. Mynd af vef KA.

„Við erum gríðarlega ánægðir að Magnús sé tilbúinn að skuldbinda sig í verkefnið með okkur næstu þrjú árin. Magnús er einn efnilegasti leikmaður landsins og hlökkum við til þess að sjá hann vaxa og dafna í gulu treyjunni,“ segir Haddur Júlíus Stefánsson formaður handknattleiksdeildar KA.

Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari KA, er ekki síður ánægður: „Ég er ótrúlega ánægður með að Magnús taki slaginn með okkur áfram. Hann er stórt púsl í okkar plönum næstu árin,“ segir þjálfarinn.