Fara í efni
Fréttir

Þórsurum er alvara með framtíð handboltans

Þórsurum er alvara með framtíð handboltans

Handknattleiksdeild Þórs hefur samið við Stevče Alušovski frá Norður-Makedóníu um að taka við þjálfun Þórsliðsins, eins og greint var frá á Akureyri.net fyrr í dag. Fréttin hefur þegar vakið mikla athygli – eins og sjá má hér – enda þjálfaði Alušovski eitt þekktasta félagslið heims síðasta vetur.

„Við kynntum honum félagið, aðstöðuna og starfið við sem ætlum að fara í. Það má segja að við séum að núllstilla deildina og honum þótti verkefnið spennandi; við eigum efnilega unga leikmenn og hann er spenntur bæði fyrir því að leiðbeina þjálfurunum okkar og koma að þjálfun yngri flokkan,“ sagði Árni R. Jóhannesson, verðandi formaður handknattleiksdeildar Þórs, við Akureyri.net.

Of spennandi til að láta ekki slag standa

Árni viðurkennir að Þórsarar hafi allt að því talið það of gott til að vera satt þegar möguleika gafst á því að semja við Alušovski. „Við rennum auðvitað pínu blint í sjóinn en í undirbúningsvinnunni fengum við fagaðila að borðinu með okkur, Stevče er virtur í sínu heimalandi, sagður harður og mjög góður í handboltafræðunum,“ segir í tilkynningu sem Árni skrifaði og birtist á heimasíðu Þórs síðdegis.

Þar segir einnig: „Þannig að hvert mannsbarn sem fylgist með handbolta ætti að sjá að Þórsurum er alvara á ferð hvað framtíð handboltans í Þorpinu varðar. Það má segja að þeir aðilar sem settust að borðinu eftir síðustu leiktíð hafi einróma ákveðið að nú væri rétti tíminn til að núllstilla félagið og handknattleiksdeildina.

Við erum með ráðningu Stevce einfaldlega að byrja uppá nýtt. Deildin var búin að ræða við nokkra aðila hér innanlands varðandi að taka að sér þjálfun meistaraflokks, en að lokum var þetta of spennandi kostur til að láta ekki slag standa.

Innan raða félagsins eru margir ungir og efnilegir leikmenn í bland við eldri leikmenn. Við hugsum þessa ráðningu þannig að þeir sem yngri eru fá tækifæri á að fá þjálfun frá algjörlega framúrskarandi þjálfara, manni með gríðarlega reynslu og þeir eldri og reyndari fá vonandi ákveðið „kick start“.

Stevce er einnig mjög áhugasamur að sinna yngri iðkendum félagsins og vinna með öðrum þjálfurum deildarinnar. Þar sjáum við líka frábært tækifæri fyrir þjálfarana okkar að fá að starfa með og fá leiðsögn hans til að efla sína þekkingu enn betur.“

Flestir atvinnumenn af Norðurlandi úr Þór

„Við viljum einnig þakka fráfarandi þjálfurum meistaraflokks kærlega fyrir vel unnin störf. Við metum þau mikils og segjum stórt TAKK,“ segir í tilkynningunni.

„En eins og áður hefur komið fram þá er hugur í Þorpinu og hópur fólks tilbúið að vinna á bak við tjöldin en við áréttum að öllum sem áhuga hafa er velkomið og ganga til liðs við þann hóp.

Skoðum bara staðreyndir, Þór hefur alið af sér flesta atvinnumenn í handbolta á Norðurlandi og sennilega á landsbyggðinni. Okkur fannst við aðeins hafa orðið eftirbátar í því undanfarin ár en ætlum okkur að rétta okkar hlut við.

Fyrirliðar karlalandsliðanna í handbolta og fótbolta koma úr Þór. Einn besti körfuknattleiksmaður landsins kemur úr Þór. Mikill fjöldi leikmanna í Olísdeildinni eru uppaldir Þórsarar.“

Dugnaður og eljusemi

„Félagið og leikmenn deildarinnar hafa búið til æfingaðstöðu sem mörg af stærri félögum landsins yrðu stolt af að hafa. Félagið er harðkjarna félag knúið áfram af dugnaði og eljusemi. Þór hefur alltaf þurft að berjast duglega fyrir sínu. Leikmenn liðsins eru allt harðduglegir menn sem hafa ekki slegið slöku við í að hjálpa deildinni að hreinlega lifa af. Hvort sem það er að þrifa bíla eða keyra rjómabollur í fyrirtæki. Við þurfum að berjast fyrir hvern iðkanda, hvern leikmann og hverja krónu. En okkur finnst það bara fjandi gaman og við ætlum okkur að gera það áfram og við ætlum okkur að halda áfram að gefa leikmönnum okkar tækifæri á að komast eins langt og þeir sjálfir vilja stefna.

Við ætlum okkur að auka iðkendafjölda í öllum flokkum handknattleiksdeildarinnar og þessi vetur á að einkennast af gleði og skemmtun fyrir alla, leikmenn, þjálfara og ekki síst alla Þórsara.“

Smellið hér til að lesa fréttina um ráðningu Stevce Alusovski.