Fara í efni
Fréttir

Þorsteinn segir sig úr stjórn Iðnaðarsafnsins

Þorsteinn Einar Arnórsson. Mynd af Facebook-síðu Iðnaðarsafnsins.

Þorsteinn Einar Arnórsson hefur sagt sig úr stjórn Iðnaðarsafnsins að því er fram kemur í tilkynningu á Facebook-síðu safnsins. Þorsteinn hefur setið í stjórn safnsins frá upphafi, eða í 25 ár og lengi unnið að framgangi safnsins meðfram störfum hjá Iðju og síðar Einingu-Iðju. Varamaður Þorsteins í stjórn safnsins er Tryggvi Jóhannesson, varaformaður Einingar-Iðju.

Mikið áfall fyrir iðnaðarbæinn Akureyri

Í tilkynningu safnsins segir að úrsögn Þorsteins sé mikil tíðindi og vond því enginn maður hafi betri þekkingu á sögu iðnaðar hér í bæ enda hafi hann staðið vaktina á safninu sem hollvinur alla tíð.

„Ljóst er að skarð það er Þorsteinn skilur eftir sig verður ekki fyllt og óhætt er að segja að brottför Þorsteins úr stjórninni er okkur öllum mikið áfall og í raun er þetta mikið áfall fyrir Iðnaðarbæinn Akureyri enda alveg ljóst að framlag Þorsteins til safnsins og þar með til sögu Akureyrar alla tíð verður ekki metið til fjár,“ segir meðal annars í tilkynningunni og endað á því að það sé Þorsteins sjálfs að upplýsa hvað olli því að hann tók þá ákvörðun að segja sig úr stjórninni.

Þorsteinn var lengi starfsmaður Einingar-Iðju og eins og fram kemur í tilkynningu safnsins veit hann sennilega manna mest um iðnaðarsögu Akureyrar. Hann er hættur störfum og hefur sinnt Iðnaðarsafninu af miklum áhuga í sjálfboðavinnu í mörg ár.

Unnið hefur verið að því að færa rekstur Iðnaðarsafnsins undir Minjasafnið og má vænta tíðinda af því fljótlega, jafnvel í þessari viku. Úrsögn Þorsteins úr stjórninni tengist þeim áformum og hvernig ætlunin er að reka safnið samkvæmt nýju skipulagi.