Legóbær aftur opinn gestum um helgina

Legobær sem settur var upp á Iðnaðarsafninu um síðustu helgi, á Akureyrarvöku, vakti mikla lukku og leikurinn verður endurtekinn um helgina vegna fjölda fyrirspurna. Safnið er opið frá kl. 11.00 til 17.00 bæði laugardag og sunnudag.
„Við vorum viss um að þetta myndi vekja athygli, en grunaði ekki að svona margir kæmu,“ segir Haraldur Þór Egilsson safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri sem rekur Iðnaðarsafnið. „Aðsóknin var fordæmalaus. Tæplega 1000 manns heimsóttu safnið, flestir í fyrsta sinn.“
Margar fjölskyldur brugðu sér til Legobæjar á Iðnaðarsafninu, yngsta kynslóðin hafði gaman af Lego dótinu eins og nærri má geta, og „margir eldri Legoistar gengu í barndóm,“ segir Haraldur Þór og bætir við að margir hafi í raun uppgötvað safnið og þá fjölbreyttu iðnaðarframleiðslu sem fram fór á Akureyri á árum áður.
Á morgun, laugardag verður Legolestin á ferðinni á milli kl. 13.00 og 14.00 „og bæjarstjóri Legobæjar segir sögunar sem fylgja Legoinu,“ segir Haraldur Þór. Bætir svo við að um helgina fái fullorðnir ókeypis inn á safnið ef þeir verða í fylgd með börnum!
Legobærinn á Iðnaðarsafninu um síðustu helgi. Mynd: Hilmar Friðjónsson