Fara í efni
Fréttir

Stríð hafið um muni Iðnaðarsafnsins?

Mynd af Facebook-síðu Iðnaðarsafnsins.

Mikil átök virðast vera á bakvið tjöldin um málefni Iðnaðarsafnsins í tengslum við tillögur um færslu þess undir Minjasafnið frá og með áramótum. Í dag birtist tilkynning á Facebook-síðu safnsins um að allir safngripir Mjólkursamlagsins á Akureyri sem eru á safninu, um 200 talsins, verði fluttir suður á Selfoss á safn sem Mjólkursamsalan er með þar um sögu mjólkuriðnaðarins í landinu. 

Mikill styr hefur staðið um framtíð safnsins undanfarið og hugmyndir um það hvernig starfsemi og rekstur safnsins yrðu útfærð undir hatti Minjasafnsins. Þar er meðal annars tekist á um hve mikið safnið verður eða ætti að vera opið. Undir lok nóvember tilkynnti einn reyndasti hollvinur og stjórnarmaður safnsins, Þorsteinn E. Arnórsson, um úrsögn sína úr stjórn safnsins og var harðorður í garð fulltrúa Akureyrarbæjar. Þorsteinn hafði setið í stjórn safnsins frá stofnun þess. Örfáum dögum síðar var sagt frá því að í undirbúningi væri að stofna sjóminjasafn á Akureyri og að skipslíkön sem væru í láni á Iðnaðarsafninu yrðu flutt þaðan og komið fyrir í geymslu þar til sjóminjasafni yrði komið á fót. 

Sjaldan er ein báran stök, segir máltækið, og nú bætast munir tengdir mjólkurframleiðslu við þennan lista yfir muni sem virðast vera á förum úr Iðnaðarsafninu, innan við mánuði áður en færsla á rekstri safnsins undir Minjasafnið á að verða að veruleika samkvæmt þeim hugmyndum og áformum sem samþykkt voru í bæjarráði 30. nóvember. Í lok tilkynningarinnar á Facebook-síðu safnsins í morgun segir að fleiri safngripir sem hafa verið til sýnis á Iðnaðarsafninu og eru í láni hafi og verði skilað á næstu dögum.

Bæjarráð Akureyrarbæjar samþykkti að unnið verði að gerð þjónustusamnings við Minjasafnið á Akureyri um rekstur Iðnaðarsafnsins næstu þrjú árin. Einhver snurða gæti verið hlaupin á þann þráð miðað við viðbrögð innan úr Iðnaðarsafninu þar sem safngripum mun fækka í hundraðatali miðað við þær tilkynningar sem birst hafa. 

Önnur tilkynning birtist á sömu síðu um hálftíma áður, þar sem tilkynnt er að safnið sé lokað vegna starfsmannafundar. Akureyri.net er ekki kunnugt um hve margir starfa við safnið í sjálfboðavinnu, en þar starfar einn launaður starfsmaður.