Fara í efni
Fréttir

Strandgata 17 færð í upprunalegt horf

Tölvugerð mynd af Strandgötu 17 með upprunalegu útliti felld inn í ljósmynd.

Til stendur að færa húsið Strandgötu 17 á Akureyri til upprunalegs horfs og þar er um verulega breytingu að ræða. Húsið, sem byggt var 1885, er ekki stórt en hefur lengi verið áberandi, á horni Strandgötu og Glerárgötu.

Í tillögu Ágústs Hafsteinssonar arkitekts að endurgerð hússins, sem fjallað var um á fundi Skipulagsráðs Akureyrar í síðustu viku, er gert ráð fyrir að viðbygging frá 1908 sem liggur upp að Glerárgötu verði fjarlægð. Er tillagan í samræmi við gildandi deiliskipulag sem gerir ráð fyrir að viðbyggingin víki til að skapa pláss fyrir breikkun göngustígs meðfram götunni. Einnig verður viðbygging til norðurs rifin.

Forsendur tillögu að breytingum eru þessar:

  • Viðbygging til vesturs frá 1908 verði rifin til þess að rýma til fyrir gönguleið meðfram Glerárgötu.
  • Vesturlóðarmörkum er hliðrað um 3,5 metra til austurs þannig að lóðarmörkin verði 1 metra frá eftirstandandi húsi.
  • Viðbygging til norðurs verði rifin, byggingarár er óþekkt.
  • Fyrirkomulag á gluggum verði fært til upprunalegs horfs.
  • Ytra og innra byrði útveggja hússins verði fært til upprunalegs horfs með liggjandi timburpanel.
  • Innréttuð verði ein íbúð í húsinu.

„Skipulagsráð tekur jákvætt í fyrirliggjandi tillögu. Að mati ráðsins er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að bæta öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á þessu svæði með því að breikka núverandi göngustíg og færa hann fjær Glerárgötu. Er samþykkt að óskað verði heimildar Minjastofnunar Íslands til að fjarlægja núverandi viðbyggingu og að húsið verði endurbyggt í samræmi við fyrirliggjandi tillögu,“ segir í bókun Skipulagsráðs Akureyrar.

Smellið hér til að sjá fleiri myndir af húsinu – gamlar og nýjar, og af tillögunni.