Fara í efni
Fréttir

Stórkostleg vika – mikill ávinningur

Þórsararnir í Serbíu, frá vinstri: Kristján Páll Steinsson, Ágúst Lárusson, Stevce Alusevski, Halldór Örn Tryggvason og Jón Ólafur Þorsteinsson.

Fimm Þórsarar sóttu nýlega vikulangar handboltabúðir í Serbíu, tveir ungir leikmenn meistaraflokks og tveir þjálfarar yngri flokka auk Stevce Alusevski, þjálfara meistaraflokks Þórs.

„Þetta var frábærlega heppnað, við fengum mjög mikið út úr þessu, bæði leikmenn og þjálfarar,“ segir einn Þórsaranna, Halldór Örn Tryggvason, yfirþjálfari yngri flokka félagsins, við Akureyri.net.

Auk Halldórs fóru utan leikmennirnir Jón Ólafur Þorsteinsson og Kristján Páll Steinsson, markvörður, báðir fæddir 2002, og þjálfarinn Ágúst Lárusson.

Stofnandi og stjórnandi búðanna – Handball 4 All – er Serbinn Dragan Djukic, gamalreyndur þjálfari sem m.a. hefur stýrt landsliðum Svartfjallalands og Bretlands (á Ólympíuleikunum í London 2012), og þjálfað félagslið í nokkrum löndum, m.a. stórliðin Vardar Skopje í Makedóníu og Pick Szeged í Ungverjalandi.

Kristján Páll Steinsson, til vinstri, og Jón Ólafur Þorsteinsson.

„Þetta eru fyrst og fremst þjálfarabúðir en jafnframt tækifæri fyrir unga leikmenn til að sýna sig og læra; þarna koma ungir leikmenn víða að, aðallega 23 ára og yngri,“ segir Halldór Örn. „Að þessu sinni voru konur í fyrsta skipti í hópi leikmanna, tvær landsliðskonur frá Ísrael sem leika einmitt gegn Íslandi í haust.“

Djukic fær til liðs við sig þekkta þjálfara sem leiðbeinendur og þjálfarar hvaðanæva mæta til þess að læra. „Auk okkar Gústa voru þarna þjálfarar frá Íran, Ísrael, Ítalíu, Rúmeníu, Serbíu, Makedóníu og Danmörku – þrír Danir frá liði Skjern,“ segir Halldór.

Alusevski á meðal leiðbeinenda

Stevce Alusevski, sem þjálfar Þórsara, hefur nokkrum sinnum tekið þátt í handboltabúðum Djukic og var nú einn leiðbeinenda. Búðirnar fara fram í Kladova, 10 þúsund manna bæ en þangað er fjögurra til fimm klukkustunda akstur frá Belgrad. „Dragan var fyrst með búðirnar í höfuðborginni en færði sig til Kladova því í Belgrad hvarf hópurinn í fjöldann; í Kladova er bara hugsað um handbolta þessa viku, allir vita af búðunum og bæjarfélagið í heild tekur í raun þátt.“

Hópurinn sem kom saman í Kladova, kennarar og nemendur.

Tíminn var vel nýttur, segir Halldór. „Við vorum ræstir snemma að morgni alla daga, klukkan 10 hófst tveggja tíma æfing, eftir hádegismat var frítími, yfir heitasta tíma dagsins, og svo önnur tveggja tíma æfing seinni partinn – allt alvöru æfingar, full keyrsla! Öll kvöld voru svo þjálfarafundir og fyrirlestrar, og samskonar prógram fyrir leikmennina. Farið var yfir líkamlega þáttinn, íþróttasálfræðingur fór yfir andlega þáttinn, og eftir formlega dagskrá var svo sest niður og talað um handbolta til miðnættis eða lengur.“

Allir eins og opin bók

„Þarna voru frábærir fyrirlesarar og æfingarnar voru ekki síður frábærar, við lærðum helling á þessari einu viku,“ segir Halldór Örn. „Þetta var alveg stórkostleg vika og handboltalegur ávinningur gríðarlega mikill. Við erum mjög þakklátir Stevce og Þór, bæði unglingaráði og stjórn meistaraflokks, að gefa okkur þetta tækifæri.“

Þjálfararnir skiptust á að stjórna leikmönnum á æfingum; einn sýndi hvernig hann þjálfaði vörn, annar sókn. Áherslurnar voru mismunandi, menn hafa ólíkar skoðanir á því hvernig best sé að spila, „en það góða var að allir voru eins og opin bók; maður get spurt að öllu og fengið svör. Þarna voru sko engin leyndarmál,“ segir Halldór.

„Hver og einn sagði af hverju hann vildi gera hlutina svona en ekki hinsegin; þjálfarar eru með mismunandi hugmyndafræði eins og í öðrum íþróttagreinum, þetta voru allt þjálfarar í fremstu röð og það var gaman að sjá að í raun var grunnurinn alltaf sá sami og ekki verið að flækja hlutina. Og menn voru sammála um að ekki skipti máli hvort um er að að ræða atvinnumenn eða unga leikmenn, jafnvel börn; allir geri mistök, það skipti ekki máli heldur sé aðalmálið að læra af mistökunum.“

Viðkvæði allra var það sama, segir Halldór: „við erum öll mannleg og enginn er yfir annan hafinn. Þarna voru sannarlega allir jafnir þótt sumir væru búnir að spila meira en 100 landsleiki, þjálfa í bestu deildum heims og á ólympíuleikum. Þegar allt kemur til alls eru þetta bara venjulegir menn.“

Stevce Alusevski, þjálfari meistaraflokks Þórs, og Halldór Örn Tryggvason, yfirþjálfari yngri flokka félagsins.

Hreinskilni

„Við stöndum okkur vel sem handboltaþjóð, það sem vantar oftast hjá Íslendingum er það sem ekki er hægt að kenna – stærð og styrkur, en strákarnir okkar gáfu ekkert eftir og eru með betri tækni, meiri hraða og betri handboltahugsun en margir aðrir; Jón Óli skildi hina til dæmis oft hreinlega eftir á æfingunum!“

Halldór hrífst af hreinskilni margra erlendra þjálfara, til dæmis frá löndum austan gamla járntjaldsins. „Sumum finnst þeir dónalegir en þeir eru einfaldlega hreinir og beinir; segja það sem segja þarf. Það er aldrei persónulegt, heldur nauðsynlegt til þess að leiðbeina leikmönnum. Stevce er svona og það var gaman að heyra hvað allir sögðu um hann – að Stevce væri frábær þjálfari en líka góð manneskja sem vill allt fyrir alla gera, sem við vissum að sjálfsögðu. Við erum mjög heppin að hafa fengið Stevce til okkar í Þór,“ sagði Halldór Örn.

Jón Ólafur Þorsteinsson, lengst til vinstri, á einni æfingunni.

Kristján Páll Steinsson og Jón Ólafur Þorsteinsson þegar hópurinn fór saman í fjallgöngu.

Ágúst Lárusson og Akim Komnenic. Hann starfaði lengi með Dragan Djukic, stofnanda handboltabúðanna, en þjálfar nú í Ísrael.

Íþróttahöllin í Kladova þar sem æfingarnar fóru fram.