Fara í efni
Fréttir

Stökkpallurinn heyrir brátt sögunni til

Skíðastökkpallurinn við brún Hlíðarfjalls, ef til vill sá frægasti í heimi þessa dagana. Hann verður horfinn fljótlega. Mynd: Red Bull/Predrag Vuckovic

Stökkpallurinn við brún Hlíðarfjalls, sem útbúinn var sérstaklega fyrir skíðastökk ellegar skíðaflug Japanans Ryoyu Kobayashi, heyrir sögunni til eftir fáeina daga.

Sá japanski stökk hvorki meira né minna en 291 metra á miðvikudaginn, tæpum 40 metrum lengra en heimsmet Austurríkismannsins Stefan Kraft, og verður afrekið lengi í minnum haft. Ummerki um stökkið verða hins vegar engin þegar frá líður.

Venjulegir stökkpallar úti í hinum stóra heimi eru smíðaðir úr hefðbundnum byggingarefnum en þessi stóri og mikli einnota pallur í Hlíðarfjalli var eingöngu mótaður úr snjó.

Orkudrykkjarisinn Red Bull stóð fyrir viðburðinum og var ekkert til sparað. Langan tíma tók að hanna stökkpallinn, í hann voru notaðir um 80 þúsund rúmmetrar af snjó og það tók innlenda og erlenda verktaka margar vikur að móta hann. Tveir snjótroðara af stærstu gerð voru fluttir til landsins í því skyni.

Að sögn Brynjars Helga Ásgeirssonar, forstöðumanns í Hlíðarfjalli, verður líklega hafist handa við að ryðja pallinum burt strax eftir helgi. 

Eftir að pallurinn hverfur verður hægt að opna á ný gönguleiðina upp á topp Hlíðarfjalls, Sneiðinginn sem svo er kallaður. Það er vinsæl gönguleið.

Japaninn Ryoyu Kobayashi sigri hrósandi í Hlíðarfjalli eftir stökkið sögulega. Mynd Red Bull/Joerg Mitter

Ekki heimsmet

Enginn efast um að Ryoyu Kobayash hefur stokkið lengra á skíðum en nokkur annar maður en Alþjóða skíðasambandið hefur þrátt fyrir það gefið út að stökkið verði ekki viðurkennt sem heimsmet. Stefan Kraft á því heimsmetið í skíðastökki sem fyrr. Metið er 253,5 metrar, sett á heimsbikarmóti í norska bænum Vikersund í mars árið 2017.

Akureyri.net leyfði sér að nota orðið heimsmet eins og aðrir fjölmiðlar í veröldinni, þegar fjallað var um ævintýri Japanans í Hlíðarfjalli. Í raun mátti ekki gera ráð fyrir því að um viðurkennt met yrði að ræða því ekki var um hefðbundið mót viðurkennt af alþjóða sambandinu. Þarna var um að ræða sérstakan viðburð fyrir einn stökkvara á vegum fyrirtækis en ekki íþróttasambands.

Afrek Japanans er alls ekki minna þrátt fyrir að það teljist ekki formlegt met og mun vonandi halda nafni Hlíðarfjalls og Akureyrar á lofti um ókomna.

Gera má ráð fyrir að í Hlíðarfjalli verði einhvers konar minnismerki um stökk Japanans, afrek sem með góðri samvisku mætti kalla flug. Ef til vill væri við hæfi að vekja athygli á ævintýri þessa japanska flugmanns á Flugsafni Íslands á Akureyri!

Stökkpallurinn uppi við fjallsbrúnina og brautin þar sem Kobayashi sveif 291 metra. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Heimsmetstilraun í Hlíðarfjalli

Stórbætti metið: stökk 291 m – MYNDBAND