Fara í efni
Fréttir

Heimsmetstilraun í Hlíðarfjalli

Myndir: Skapti Hallgrímsson

Japanskur ofurhugi reyndi í morgun að slá heimsmetið í skíðastökki – eða skíðaflugi, eins og stundum er talað um – í Hlíðarfjalli. Markmiðið ku hafa verið að stökkva 300 metra en ekki er ljóst hvort það tókst. Heimsmetið fyrir daginn var 253,5 m. Það setti Austurríkismaðurinn Stefan Kraft 18. mars árið 2017 í norska bænum Vikersund.

Það er austurríski orkudrykkjarisinn Red Bull sem stendur fyrir þessu ævintýri. Án efa er um að ræða verst geymda leyndarmál Akureyrar í langan tíma. Fjöldi fólks „vissi“ hvað var í vændum en enginn mátti staðfesta nokkurn skapaðan hlut.

Starfsmenn í Hlíðarfjalli og aðrir sem nálægt hafa komið voru bundnir trúnaði og talsmaður Red Bull erlendis hefur verið þögull sem gröfinn. Nokkrir mánuðir eru síðan Akureyri.net hafði veður af málinu og hefur nokkrum sinnum reynt að afla upplýsinga hjá fyrirtækinu en svar talsmannsins er ætíð hið sama: „No comment“ – sem sagt: Ég vil ekkert segja. Undirbúningur hefur staðið yfir í marga mánuði og margir komið að. Akureyri.net hefur ekki náð sambandi við fulltrúa Red Bull í dag.

Fyrirtækið flutti til landsins tvo snjótroðara af stærstu gerð til þess að undirbúa ævintýrið. Japaninn renndi sér af stað frá brún Hlíðarfjalls og flaug af stökkpalli sem útbúinn var sérstaklega.

Hópur fólks myndaði tilraunir Japanans fyrir Red Bull en öðrum var ekki hleypt á staðinn. Myndefnið mun fyrirtækið ætla að nota í kynningarskyni enda þekkt fyrir ýmiskonar uppátæki í þeim efnum. Ekkert á að leka út um hvernig til tókst fyrr en efnið birtist á samfélagsmiðlum Red Bull.

Rauða línan sýnir gamla heimsmetið en neðsta bláa línan mun vera 300 metrum neðan stökkpallsins. Sú vegalengd er á við þrjá knattspyrnuvelli.