Fara í efni
Fréttir

Staðir á Akureyri og nágrenni í þrívídd

Skjáskot af þrívíddarskönnðum Eiðsvellinum. Höfundarréttur að myndskönnun: Hermann Valsson.

Akureyri.net birti á dögunum frétt um framkvæmdir við byggingu nýrrar Miðgarðakirkju þar sem vísað var á þrívíddarmyndir/sýndarveruleika (VR) sem Hermann Valsson tók. Hermann er menntaður kerfis- og ferðamálafræðingur og leiðsögumaður og starfar sem leiðsögumaður.

Skoðandinn getur farið í kringum kirkjuna og inn í hana og skoðað hana nánast eins og viðkomandi væri á staðnum, sérstaklega ef þessar myndir eru skoðaðar með sérstökum sýndarveruleikagleraugum. Hermann fór sjálfur til Grímseyjar í byrjun nóvember og myndaði „í sjálfboðavinnu til að skrásetja hversu ötulir heimamenn eru að reisa nýju kirkjuna eftir brunann 2021,“ eins og hann orðaði í orðsendingu til Akureyri.net. Hann vann þessa skönnun í samvinnu við heimamenn.


Skjáskot úr þvívíddarskönnun inni í Gamla skóla í MA. Höfundarréttur: Hermann Valsson.

Myndirnar er hægt að skoða í tölvu eða síma á sama hátt og gert er til dæmis í Google street view, en neðst til hægri á skjánum er einnig hnappur (sjá mynd) til að skoða myndefnið með sýndarveruleikagleraugum.

Hermann hefur skannað fleiri staði á Akureyri og í Eyjafirði með sama hætti. Þessi tækni býður ekki aðeins upp á að gengið sé í kringum, um og inn í viðkomandi byggingar heldur er einnig í boði svokallað dúkkhússjónarhorn (e. Dollhouse view) og yfirlitsmynd sem sýnir skipulag húsnæðis (e. Floor plan). Ekki er nóg með að Hermann bjóði þannig upp á skoðun á stöðunum heldur eru þar einnig krækjur á fróðleik og upplýsingar um viðkomandi staði.

Hermann er með fleiri staði í vinnslu hér fyrir norðan, þar á meðal Sundlaug Akureyrar og Akureyrarkirkju.


Hér er hægt að skoða Útlagann, listaverk Einars Jónssonar, í krók og kring. Ekki nóg með það heldur er í leiðinni hægt að lesa fróðleik um Einar. Skjáskot úr þrívíddarskönnun. Höfundarréttur: Hermann Valsson.