Fara í efni
Fréttir

Skorar þegar hann byrjar – eitt stig í Kópavogi

Mikael Breki Þórðarson var í fyrsta skipti í byrjunarliði KA í Bestu deildinni í sumar gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í gær, og skoraði eftir aðeins 10 mínútur. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Mikael Breki Þórðarson var í byrjunarliði KA í fyrsta skipti í sumar og skoraði gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í 1:1 jafntefli á útivelli á sunnudaginn í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Mikael Breki, sem er 18 ára, gerði eitt mark í Bestu deildinni í fyrra – þegar hann var í byrsta skipti í byrjunarliði KA í deildinni. Samkvæmt þessu kann það góðri lukku að stýra að velja þennan bráðefnilega leikmann í liðið!

Segja má að jafntefli hafi verið sanngjörn úrslit í Kópavogi. Fyrirfram hefðu KA-menn örugglega verið ánægðir með eitt stig gegn meisturunum á útivelli en miðað við gang leiksins hefðu þeir allt eins getað hirt öll stigin. Blikarnir voru að vísu aðeins meira með boltann en KA átti fleiri skot sem hittu á markið og léku mjög vel á köflum.

Mikael Breki kom KA í 1:0 snemma leiks með góðu skot utan teigs en Höskuldur Gunnlaugsson jafnaði úr vítaspyrnu eftir rúman hálftíma. Dæmt var á Marcel Römer sem var afar óheppinn að sparka í einn Blikann, en víti var engu að síður réttur dómur.

Um það bil sem nokkurra mínútna uppbótartíma var að ljúka kom Vikt­or Örn Mar­geirs­son boltanum í mark KA en eftir að leikmenn Blika, stuðningsmenn og þjálfarar höfðu fagnað innilega í drjúga stund kom í ljós að markið yrði ekki talið með. Jóhann Ingi Jónsson eða annar aðstoðardómara hans töldu Viktor Örn hafa skorað með hendi, við litla hrifningu starfsmanna utan vallar. Haraldur Björnsson aðstoðarþjálfari fékk að líta rauða spjaldið fyrir mótmæli og aðalþjálfari Breiðabliks, Halldór Árnason, fékk gult spjald - væntanlega fyrir eitthvað vægari yfirlýsingar í garð dómaranna.

Ekki var annað sjá í sjónvarpsútsendingu frá leiknum en dómaratríóið hefði rétt fyrir sér. Í myndbandi sem stuðningsmaður Blika tók frá öðru sjónarhorni, úr áhorfendastúkunni, og dreift var á samfélagsmiðlum, er ekki að sjá að neitt hafi verið athugavert við markið. Boltinn virðist fara í mjöðm leikmannsins. Fyrst svo er má segja að KA-menn hafi sloppið með skrekkinn en stigið var engu að síður verðskuldað.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

 

Smellið á myndina til að sjá helstu atriði úr leiknum. Upptakan er af youtube síðu Bestu deildarinnar.