Topplið, tvíhöfði og Íslandsmeistarar
Fyrri hluti vikunnar verður rólegur þegar horft er yfir leiki akureyrskra liða og engir heimaleikir fyrr en um komandi helgi. Karlaliðin í handboltanum leika bæði í vikunni, KA úti gegn toppliði deildarinnar á miðvikudag, en Þór heima gegn Íslandsmeisturunum á laugardag. Karlalið Þórs í körfuknattleik á útileik á fimmtudag og svo heimaleik á sunnudag, en þá taka bæði Þórsliðin í körfunni á móti Selfyssingum. Kvennalið SA í íshokkí spilar fyrir sunnan á laugardag.
MIÐVIKUDAGUR 3. DESEMBER - handbolti
Karlalið KA í handknattleik er í 4. sæti og aðeins tveimur stigum frá toppliðunum í Olísdeildinni. Á miðvikudag er einmitt komið að því að sækja topplið Hauka heim í Hafnarfjörðinn. Haukar eru með 18 stig eftir 12 umferðir, jafnir Val að stigum, en KA er með 16 stig.
- Olísdeild karla í handknattleik
Ásvellir í Hafnarfirði kl. 20:15
Haukar - KA
Haukar unnu Aftureldingu á útivelli í síðustu umferð, 31-22, en Afturelding er í 3. sæti deildarinnar. KA vann Selfoss, 33-28, á heimavelli. Keppni í Olísdeildinni er rúmlega hálfnuð, 12 umferðum lokið af 22. KA og Haukar mættust á Akureyri um miðjan september og höfðu Haukar þá betur og eru eina liðið sem hefur náð að vinna KA fyrir norðan.
FIMMTUDAGUR 4. DESEMBER - körfubolti
Karlalið Þórs í körfuknattleik hefur verið í brasi það sem af er leiktíð og aðeins unnið einn leik af fyrstu átta. Þórsarar sitja í botnsæti deildarinnar með einn sigur, eins og reyndar tvö önnur lið, Hamar og Fylkir. Á fimmtudag mætast Hamar og Þór í Hveragerði og fá Þórsarar þá tækifæri til að koma sér aftur úr botnsætinu.
- 1. deild karla í körfuknattleik
Íþróttahúsið í Hveragerði kl. 19:15
Hamar - Þór
Hamar tapaði með tíu stiga mun á útivelli gegn Selfyssingum, 93-83, í síðustu umferð. Þór tók á móti Fjölni og tapaði með sex stiga mun, 115-121. Eini sigurleikur beggja þessara liða er gegn KV.
LAUGARDAGUR 6. DESEMBER - íshokkí
Kvennalið SA í íshokkí er í efsta sæti Toppdeildarinnar með 19 stig eftir sjö leiki. SA hefur unnið alla leiki sína til þessa, þar af tvo í framlengingu. Fjölnir er í neðsta sætinu án stiga það sem af er úr sex leikjum.
- Toppdeild kvenna í íshokkí
Egilshöllin kl. 16:45
Fjölnir - SA
SA og Fjölnir hafa mæst þrisvar það sem af er leiktíðinni og allir leikirnir endað með fimm marka sigri SA, 5-0 á útivelli og 6-1 og 5-0 á heimavelli.
- - -
Karlalið Þórs í handknattleik er í 10. sæti Olísdeildarinnar með sjö stig eftir 12 umferðir, eins og Selfyssingar, en ÍR er í neðsta sætinu með fimm stig. Þór tekur á móti Fram í 13. umferðinni á laugardag. Fram er í 8. sætinu með tíu stig.
- Olísdeild karla í handknattleik
Íþróttahöllin á Akureyri kl 17
Þór - Fram
Þórsarar töpuðu á útivelli fyrir neðsta liði deildarinnar, ÍR, í 12. umferðinni, en Fram tapaði 28-30 á heimavelli fyrir FH. Deildarkeppnin er rúmlega hálfnuð, 12 umferðum lokið af 22. Þór sótti Fram heim í fyrri umferðinni um miðjan september og þar höfðu Framarar betur, 37-29.
SUNNUDAGUR 7. DESEMBER - körfubolti
Kvennalið Þórs í körfuknattleik er eina ósigraða lið 1. deildarinnar. Liðið hefur unnið fyrstu sjö leiki sína á leiktíðinni. Selfyssingar eru í 4. sæti deildarinnar með fjóra sigra úr sjö leikjum.
- 1. deild kvenna í körfuknattleik
Íþróttahöllin á Akureyri kl. 16
Þór - Selfoss
Þór vann Vestra á útivelli með 82ja stiga mun í síðasta leik, 132-50, en Selfyssingar töpuðu naumlega heima gegn ÍR, 71-74.
- - -
Bæði Þórsliðin taka á móti Selfyssingum á sunnudag því að kvennaleiknum loknum mætast karlalið sömu félaga. Þórsarar spila þá þriðja leik sinn á sjö dögum því þeir eiga útileik gegn Hamri á fimmtudag. Það sama á reyndar einnig við Selfyssinga því þeir eiga útileik gegn Fylki á fimmtudag.
- 1. deild karla í körfuknattleik
Íþróttahöllin á Akureyri kl. 18:30
Þór - Selfoss
- - -
Lesendur eru hvattir til að minna á íþróttaviðburði hvers kyns sem fram undan eru í meistaraflokkum, sérstaklega ef eitthvað verður út undan og gleymist í þessari vikulegu yfirferð í vikubyrjun hér á akureyri.net - sendið tölvupóst í haraldur@akureyri.net ef koma þarf slíkum upplýsingum á framfæri.