Fara í efni
Fréttir

Skipulagsráð leggst gegn heimili á einni hæð

Hjúkrunarheimilið Lögmannshlíð við Vestursíðu. Ný bygging verður norðan við þá sem fyrir er, „ofan“ við hana á myndinni.

Skipulagsráð Akureyrar hefur hafnað erindi Framkvæmdasýslu ríkisins - Ríkiseigna þess efnis að aðalskipulagi verði breytt í því skyni að hægt verði að byggja nýtt hjúkrunarheimili á einni hæð norðan við Lögmannshlíð, hjúkrunarheimilið við Vestursíðu. Ráðið vill að frekar verði byggt á tveimur hæðum til að nýta plássið betur, ekki síst vegna Síðuskóla.

„Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að aðalskipulagi verði ekki breytt til samræmis við fyrirliggjandi erindi,“ segir í fundargerð ráðsins frá því í gær. „Að mati ráðsins er ekki vel farið með takmarkað byggingarland að gera ráð fyrir um 4.000 m2 hjúkrunarheimili á einni hæð og með því minnka það svæði sem afmarkað var í aðalskipulagi til nýtingar fyrir Síðuskóla. Er meðal annars gert ráð fyrir byggingu leikskóla á lóðinni í framtíðinni. Frekar ætti að líta til uppbyggingar á fleiri hæðum líkt og gert er við byggingu á nýju hjúkrunarheimili á Húsavík og gert hefur verið í uppbyggingu hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu, t.d. við Sléttuveg, Sóltún og í Mörkinni.“