Fara í efni
Fréttir

Sjómannamessa og minningarstund

Minningarstund við minnisvarðann um týnda og drukknaða sjómenn í morgun. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Sjómannamessa var í Glerárkirkju í morgun, eins og hefð er fyrir á sjómannadegi, og á eftir var stutt minningarstund við minnisvarðann um týnda og drukknaða sjómenn sem er fyrir utan kirkjuna. Blíðskaparveður er á Akureyri í dag eins og sjá má á myndunum.

Ræðumaður dagsins í messunni var Steingrímur Helgu Jóhannesson, sjómaður og stjórnandi hlaðvarpsins Sjóarinn. Kór Glerárkirkju söng sjómannalög undir stjórn Valmars Väljaots og séra Sindri Geir Óskarsson leiddi stundina. Séra Sindri lagði síðan blómsveig frá Sjómannafélagi Eyjafjarðar við minnisvarðann og stýrði minningarstundinni.

Í tilefni dagsins býðst fólki að sigla með Húna II um Pollinn klukkan 13, 14 og 15. Farið verður frá Torfunefsbryggju og í hverja ferð komast 50 farþegar. Húnamenn skora á smábátaeigendur að taka þátt í hópsiglingu sem hefst við Sandgerðisbót klukkan 13.30 og siglt verður inn á Poll að vanda.