Fara í efni
Fréttir

Ólafur hættir eftir 39 ár í starfi hjá Samherja

Ólafur Hermannsson lagerstjóri skipaþjónustu Samherja lætur senn af störfum hjá fyrirtækinu – en þó ekki alveg. 

„Ég færði mig frá Útgerðarfélagi Akureyringa til Samherja þegar þeir frændur höfðu gert út fyrsta skipið í hálft ár, frystitogarann Akureyrina EA. Á næsta ári verða liðin fjörutíu ár síðan saga Samherja hófst, þannig að ég hef verið hjá fyrirtækinu í rétt rúmlega 39 ár. Þótt ég láti nú formlega af störfum skila ég ekki lyklunum alveg strax, því við Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri höfum sammælst um að ég verði eftirmanni mínum innan handar næstu mánuðina,“ segir Ólafur í viðtali á vef fyrirtækisins. Hann er eðli málsins samkvæmt er í hópi elstu starfsmanna Samherja.

Aukin umsvif í landi

Ólafur er með skipstjórnarréttindi en réði sig í upphafi sem háseti á fyrsta frystitogara Samherja, Akureyrina EA, sem áður hét Guðsteinn GK. Síðan lá leiðin á frystitogarana Oddeyrina EA og Margréti EA, þar var hann stýrimaður eða skipstjóri í afleysingum.

„Ég var á sjónum í sex ár og fór þá í land til að sinna þar stækkandi skipaflota fyrirtækisins, aðallega veiðarfærum og innkaupum sem tengjast veiðarfærum. Við getum sagt að þetta hlutverk hafi verið mitt ævistarf. Á fyrstu árunum skaust ég í einn og einn túr, þegar á því þurfti að halda en eftir því sem flotinn stækkaði jukust umsvifin eðlilega í skipaþjónustunni í landi.“

Skipverjar á Akureyrinni EA árið 1984. Frá vinstri: Arngrímur Brynjólfsson, Ólafur Ingi Hermannsson, Jón Ívar Halldórsson, Páll Valdimarsson, Sveinbjörn Hjörleifsson, Sigurður Sigurpálsson, Konráð Alfreðsson, Guðmundur J. Halldórsson, Þorsteinn Pálsson, Oddur Árnason, Hreinn Pálmason, Þorsteinn Vilhelmsson, Hákon Þröstur Guðmundsson, Hrafn Ingvason, Friðrik Árnason, Halldór Valur Þorsteinsson, Knútur Eiðsson, Ásgrímur Sigurðsson, Kristinn Pálsson, Pétur Pálmason, Brynjólfur Jónsson, Heiðar Sigurbjörnsson, Kristján Viktor Kristjánsson og Þórólfur Ingvarsson.

Óskir um veiðarfæri alltaf samþykktar

„Veiðarfæri hafa tekið miklum breytingum á þessum árum og Samherji hefur alltaf fylgst vel með þróuninni. Þegar nýjungar hafa litið dagsins ljós í veiðarfærum má fullyrða að Samherji hafi verið með fyrstu útgerðum til að kynna sér þær og meta. Eigendurnir hafa alltaf samþykkt óskir skipstjóra og þeirra sem eru að vinna við veiðarfærin. Ég hreinlega minnist þess ekki að einhverjar hömlur hafi verið settar í þeim efnum af hálfu stjórnendanna, sem lýsir vel hugsunarhætti þeirra og stefnu í útgerðinni. Veiðarfæri eru dýr, sömuleiðis togvírar og ýmsar járnavörur og því þarf að taka vel ígrundaðar ákvarðanir.“

Mikill munur

„Já, já, þetta er á köflum nokkuð erilsamt starf,“ segir Ólafur. „Útgerð Samherja hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum, núna eru gerðir út nokkrir ísfisktogarar og nýverið bættist við frystitogari. Ísfiskskipin þurfa öðruvísi þjónustu en frystiskipin, sem eru kannski úti í nokkrar vikur en ísfiskskipin eru úti í nokkra sólarhringa. En allt hefst þetta, auðvitað með góðu samstarfi við áhafnir skipanna og svo þeirra sem vinna í landi við að þjónusta flotann.“

Ekki alveg hættur

„Ég kveð Samherja afskaplega sáttur, enda úrvals fólk sem starfar hjá fyrirtækinu. Vöxturinn hefur verið ævintýralegur og þegar maður hugsar til baka er margs að minnast. Sjálfsagt verður svolítið skrýtið í fyrstu að vakna á morgnana og þurfa ekki að mæta til vinnu en ég verð hérna með annan fótinn eins og fyrr segir,“ segir Ólafur Hermannsson.

Gylfi Svafar Gylfason netamaður á Kaldbaki EA hefur verið ráðinn lagerstjóri skipaþjónustu Samherja og hefur hann senn störf á nýjum vettvangi.

„Samherji þakkar Ólafi trygg og góð störf í nærri fjóra áratugi og býður Gylfa Svafar velkominn til starfa í landi,“ segir á vef fyrirtækisins.