Fara í efni
Fréttir

Safna fyrir líkani af sextugum Húna II

Næsta sumar verða 60 ár síðan smíði eikarbátsins Húna II lauk og honum var hleypt af stokkunum. Af því tilefni hefur verið ákveðið að hrinda af stað söfnun til að fjármagna smíði líkans af skipinu.

Gaman er að segja frá því að til eru nokkrir eikarplankar síðan Húni var smíðaður, að sögn Sigfúsar Ólafs Helgasonar, safnstjóra Iðnaðarsafnsins, og verður líkanið smíðað úr þeirri eik. Safnið er eigandi Húna II og stendur fyrir söfnuninni en skipið er í umsjá Hollvinafélags Húna.

Afhjúpað 22. júní 2023

Húni II var smíðaður í skipasmíðastöð KEA á Akureyri fyrir Björn Pálsson þingmann og kaupfélagsstjóra á Skagaströnd, sem í þá tíð hét formlega Höfðakaupstaður. Húni II hefur verið í eigu Iðnaðarsafnsins síðan 2006.

Leitað var til Elvars Þórs Antonssonar á Dalvík um smíði líkansins. „Elvar nefndi að það væri honum mikill heiður verði þessi smíði að veruleika enda hefði hann hitt á sinni tíð yfirsmið skipsins, Tryggva Gunnarsson,“ segir í tilkynningu Iðnaðarsafnsins.

Sigfús Ólafur segir að líkanið verði afhjúpað 22. júní 2023, þegar nákvæmlega 60 ár verða frá því að báturinn var sjósettur. „Það væri vel við hæfi að það yrði gert um borð í Húna ll sjálfum, sem næst á þeim stað er skipið snerti sjó í fyrsta sinn fyrir 60 árum fyrir framan skipasmíðastöð KEA á Oddeyrinni,“ segir Sigfús.

Ljóslifandi saga og minnisvarði

„Saga Húna ll er ljóslifandi saga skipasmíða á Akureyri á liðinni öld og merkileg svo vægt sé til orða tekið og um leið minnisvarði þeirra manna sem ruddu veginn í skipasmíði hér í bæ. Blessuð sé minning þeirra allra.“

Sigfús segir skipið varðveita merkilega sögu skipasmíða á Akureyri og nefnir sérstaklega hollvini Húna „sem með lífi sínu og sál, ómældu vinnuframlagi og elsku til skipsins, hafa haldið því við svo glæsilegu sem það er nú þegar halla fer í 60 ára afmælið. “

  • Kostnaður við smíði líkansins er um ein og hálf milljóna króna. Líkanið verður svo varðveitt í Iðnaðarsafninu á Akureyri.
  • Stofnaður hefur verið bankareikningur vegna söfnunarinnar og verður tekið við frjálsum framlögum einstaklinga, fyrirtækja og stofnana.

Reikningurinn er eign Iðnaðarsafnsins á Akureyri og er Þorsteinn Arnórsson fyrrum safnstjóri ábyrgðarmaður hans.

  • Banki 0565 – Höfuðbók 26 – reikningsnúmer 002898
  • Kennitala: 430798-2519