Fara í efni
Fréttir

300 ferðir með hátt í 5000 börn á 20 árum

Hópur Hollvina Húna II um borð í bátnum í gær. Nöfn allra má sjá neðst í fréttinni. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Börn frá Dalvík sigldu um Eyjafjörð með Húna II í gær, renndu fyrir fisk og fræddust um lífríki sjávar. Þetta er 20. árið sem grunnskólabörnum við fjörðinn er boðið í slíka ferð um borð í trébátnum glæsilega og ferðin í gær var sú síðasta að þessu sinni. Þegar Húni lagðist að bryggju var þar mættur Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs Akureyrar, með forláta tertu sem bærinn bauð Húnavinum upp á í tilefni 20 ára afmælisins, ef þannig má að orði komast.

Verkefnið kallast Frá öngli í maga og um er að ræða samstarf Hollvina Húna II, Akureyrarbæjar, Samherja og auðlindadeildar Háskólans á Akureyri. Á þessum 20 árum hafa Húnamenn farið um 300 ferðir með 4500 til 5000 börn að sögn Þorsteins Péturssonar, Steina Pje, skipasmiðs og fyrrverandi lögregluþjóns, sem verið hefur í fararbroddi Húnavina frá upphafi. 

Mark­miðið með verkefninu er að auka áhuga og skiln­ing barnanna á líf­ríki hafs­ins, sjó­mennsku og holl­ustu sjáv­ar­fangs. Þorsteinn segir að börnin hafi alltaf jafn gaman af ferðunum. „Það er gaman að segja frá því að strákur sem fór með okkur í eina af fyrstu ferðunum er orðinn sjávarútvegsfræðingur,“ sagði Steini í gær.

Húni II á Akureyri.net

Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs Akureyrar, Þorsteinn Pétursson prímusmótor í starfi Hollvina Húna í gegnum tíðina, og Valtýr Hreiðarsson, formaður Hollvinafélags Húna, hjálpuðust að við að skera fyrstu sneið tertunnar sem Akureyrarbær færði Húnamönnum. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Alsæl börn úr Dalvíkurskóla sem sigldu með Húna í gær. Mynd: Trausti Guðmundur.

Síðasta veiðiferðin! Ekki veiddist mikið í ferð gærdagsins en stemningin var þó góð um borð enda rjómablíða. Mynd: Trausti Guðmundur

Mynd: Trausti Guðmundur

Hallgrímur Valsson, Ingi Pétursson, Fjóla Stefánsdóttir og Valur Hólm Sigurjónsson gæða sér á tertunni um borð í Húna í gær.

Bjarni Bjarnason skipstjóri og Þorsteinn Pétursson – Steini Pje.

Hluti þeirra sem mynda hópinn Hollvini Húna um borð í bátnum í gær. Sumir þeirra sigldu þá en allir fengu sér tertusneið að lokinni síðustu ferð ársins með grunnskólabörn.

  • Aftari röð frá vinstri: Fjóla Stefánsdóttir, Valur Hólm Sigurjónsson, Hallgrímur Valsson, Stefán B. Sigurðsson, Ingi Pétursson, Tryggvi Ingimarsson, Sigurður Davíðsson og Brynjar Arnarsson.
  • Fremri röð frá vinstri: Trausti Guðmundur, Valtýr Hreiðarsson, Baldur Beck, Hilmar Stefánsson, Jóhannes Kárason, Sigursteinn Kristjánsson, Bjarni Bjarnason, Þorsteinn Pétursson og Valur Finnsson.