Fara í efni
Fréttir

Sækir um lóð – vill að miðbærinn vaxi og dafni

Halldór Magnússon í verslun sinni, Imperial Glerártorgi. Mynd: Snæfríður Ingadóttir

Halldór Magnússon, eigandi tískuvöruverslunarinnar Imperial á Akureyri, vill stuðla að því að verslun og þjónusta blómstri í miðbænum.

„Imperial hefur ákveðið að sækja um lóðina Hofsbót 1 og vinna að því að fá til liðs við sig fjárfesta til að byggja þar upp verslunarhúsnæði með það fyrir augum að Imperial opni þar 500 fermetra verslun með tískufatnað fyrir dömur og herra, ásamt skóm, fylgihlutum og líka útivistarfatnaði,“ segir Halldór og bætir við að með þessu vilji hann leggja sitt af mörkum til að styrkja verslun og þjónustu í miðbæ Akureyrar.

Nýjasta frétt Akureyri.net um miðbæinn: Lóðirnar Hofsbót 1 og 3 boðnar út  

Hofsbót 1 er neðri lóðin sem teiknuð er á myndina.

Tækifæri fyrir minni verslanir

Halldór hefur rekið verslunina Imperial á Glerártorgi í 15 ár og ólíkt mörgum öðrum verslunareigendum vill hann komast í miðbæinn en ekki úr honum. „Ég fór úr miðbænum fyrir 15 árum en nú langar mig þangað aftur. Imperial er þó alls ekki farin af Glerártorgi, enda er verslunin með leigusamning þar. En ég sé fyrir mér að aðal starfsemi Imperial færist í miðbæinn. Stórar verslunarkeðjur hafa í auknum mæli komið inn á Glerártorg og í aðrar verslunarmiðstöðvar, en það þurfa líka að vera til staðar tækifæri og möguleikar til að minni verslanir geti blómstrað,“ segir Halldór.

Hann segist fagna skipulagsbreytingum í miðbæ Akureyrar og vill gjarnan sjá verslun og þjónustu blómstra þar í sátt og samlyndi. „Ég er að sækja um lóð þarna því mig langar að sýna í verki að ég stend með miðbænum og að mig langi til að þar verði vöxtur og líf. Þetta er gott skref hjá bæjaryfirvöldum á Akureyri og að mínu viti það besta sem hefur gerst í langan tíma í skipulagsmálum í miðbæ Akureyrar. Vil ég þakka bæjaryfirvöldum fyrir þessa frábæru vinnu og hlakka til að sjá allt það frábæra sem er að gerast í miðbæ Akureyrar. Sé það sem Björn Ómar er að gera [á reit sem kenndur hefur verið Borgarbíó og hús JMJ] tekið með erum við Akureyringar loksins að fara að eignast okkar miðbæ með lífi og stemningu. Eina sem vantar til að fullkomna þetta er að fá gamla torgið okkar aftur sem var að mínu viti eitt helsta kennileiti Akureyrar,“ segir Halldór.

Sjálfur segist hann síður en svo vera búinn að fá nóg af verslunarrekstri eftir að hafa lifað og hrærst í tískuheiminum í 25 ár, fyrst hjá NTC veldinu, síðan hjá Gallerí Akureyri og síðustu 15 árin í Imperial. „Verslunarrekstur er mitt líf og yndi, og kannski verður þetta mitt lokaverkefni, hver veit? Það væri a.m.k. gaman að geta lagt sitt af mörkum til þess að miðbærinn okkar vaxi, dafni og þróist í skemmtilega átt.“