Fara í efni
Fréttir

Lóðirnar Hofsbót 1 og 3 verða boðnar út

Ljósmyndir: Þorgeir Baldursson

Bæjarráð Akureyrar samþykkti á fundi sínum í gær að auglýsa lóðirnar Hofsbót 1 og 3, en þar er meðal annars um að ræða athafnasvæði leigubílastöðvar BSO. 

Lóðunum verður samkvæmt samþykkt bæjarráðs úthlutað með útboðsleið með lágmarksverði í samræmi við skilmála sem lagðir voru fram á fundinum - sjá hér. Miðað er við að lágmarksboð geti verið rúmlega 263 milljónir króna, eða 25 þúsund krónur á fermetra heildarbyggingarmagns. Hofsbót 1 er rúmlega tvö þúsund fermetra lóð og Hofsbót 3 tæplega 1.600 fermetrar. Samtals eru lóðirnar 3.607 fermetrar með heildarbyggingarmagn upp á ríflega 10.500 fermbera.

Á báðum lóðum er gert ráð fyrir verslun- og þjónustu á jarðhæð og íbúðum á efri hæðum. Þó er gert ráð fyrir að atvinnustarfsemi sé heimil á annarri hæð. Gert er ráð fyrir sameiginlegum bílakjallara fyrir Hofsbót 1 og 3 með inn- og útakstri frá Strandgötu.

Húsin verða fjórar hæðir, sú efsta inndregin, nema norðurhluti Hofsbótar 1 sem verður fimm hæðir og sú efsta einnig inndregin.

Ef áhugasamir kaupendur finnast og bæjarráði berst tilboð í lóðirnar sem verður samþykkt hefur BSO sex mánaða frest til að hverfa af svæðinu, eins og fram kom í frétt Akureyri.net í desember. Þar kom einnig fram að mannvirki leigubílastöðvarinnar hafa verið með bráðabirgðastöðuleyfi til sex mánaða í senn frá árinu 1955.