Fara í efni
Fréttir

PISA „ríður húsum“ – hvað er til ráða?

Benedikt Sigurðarson fyrrverandi skólastjóri á Akureyri leggur orð í belg, í grein sem birtist á Akureyri.net í dag, um niðurstöðu PISA-könnunar OECD sem kynnt var í vikunni. Þar eru mæld hæfni og geta 15 ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúruvísindi og læsi á stærðfræði. Íslensk börn komu mjög illa út úr þessari árlegu könnun.

Benedikt kemur víða við í mjög umhugsunarverðri grein. Hann nefnir m.a. fjölmargt sem breyst hefur hér á landi á síðasta aldarfjórðungi, til dæmis þetta:

  • Rekstrarábyrgð grunnskólakerfisins var flutt til sveitarfélaga frá og með árinu 1996. Benedikt gagnrýnir ýmislegt varðandi þá breytingu.
  • Frá 1998 hefur verið gerð margvísleg breyting á gildandi námsskrám og hrært í markmiðssetningu, segir hann. Reynt hafi verið að troða inn allskonar námsgreinum, til dæmis sé búið að troða inn ensku í 1. bekk ofan í ólæsa nemendur og suma lítt talandi á íslensku.
  • Frá því að ákveðið var – án góðrar ígrundunar - að stytta námsleiðir framhaldsskóla í 3 ár hefur auk þess verið gengið miklu lengra í að „þrýsta námsefni“ framhaldsskóla – niður í grunnskóla – heldur en þekkt þroskaviðmið mæla með.
  • Tilraunir seljenda tæknivöru til að koma tölvum og ýmsum hugbúnaði inn í skólstarf hafa borið verulegan árangur - oft að því er virðist meira á forsendum framleiðenda og seljenda heldur að það hafi gerst á forsendum nemenda og réttar þeirra til náms og þroska. 
  • Mjög mikið og vaxandi áreiti og ónæði hefur orðið í skólastarfi af kröfum utanaðkomandi um að skólinn verði vettvangur fyrir fræðslu af ólíkum toga - - hvort sem það er „fjármálalæsi“ eða geðvernd - eða ofbeldi - og í hvert skipti sem neikvæðar fréttir flytjast af unglingum eða óhamingju ungs fólks hrópar einhver „skólarnir hafa brugðist!“.
  • Niðurskurður fjárveitinga hefur í einstökum (og líklega mörgum) tilfellum leitt til þess að skólar segja upp sérmenntuðum starfsmönnum en þess í stað eru ráðnir ófaglærðir starfsmenn sem „stuðningsfulltrúar“ - sérkennarar starfa t.d. ekki 1.-7. bekk í fjölmennum skólum – jafnvel á Akureyri.

Benedikt spyr hvað sé til ráða og bendir á ýmislegt. Hann segir meðal annars:

Sem fagmenntaður skólastjóri og með þónokkra reynslu á því sviði met ég það svo að eitt mikilvægasta verkefni skólastjóra á vettvangi sé að hvetja og styðja foreldra til að sinna hlutverki sínu sem „foreldra skólabarna“ og gera um leið skýrar kröfur til foreldranna fyrir hönd samfélagskerfanna um að þeir undirgangist slíkar skyldur og setji þarfir barnanna í algeran forgang.  

Smellið hér til að lesa grein Benedikts