Fara í efni
Fréttir

Nágrannar ósáttir vegna Naustagötu 13

Tölvuteiknuð yfirlitsmynd sem unnin var fyrir lóðarhafa vegna tillögu að breytingum á skipulagi reits VÞ13 í skipulagi. Íbúar segja myndina ekki í neinu samræmi við raunveruleikann hvað varðar byggingar við Davíðshaga og Kjarnagötu.

Enn eru skipulagsbreytingar vegna Naustagötu 13, eða VÞ13 eins og reiturinn heitir í skipulagi, til meðferðar hjá skipulagsráði Akureyrarbæjar. Nú síðast voru lögð fram viðbrögð lóðarhafa við athugasemdum og umsögnum sem bárust við tillögu að breytingu á aðal- og deiliskipulagi lóðarinnar. Skipulagsráðið frestaði afgreiðslu á fundi sínum í liðinni viku. Fulltrúar þriggja flokka/lista hafa ýmislegt við málið að athuga.

Íbúar mótmæla harðlega

Íbúar í nágrenni við reitinn, í fjölbýlishúsum við Kjarnagötu 45 og 51 og Davíðshaga 2 og 4, mótmæltu áformuðum skipulagsbreytingum harðlega í vetur þegar tillaga að breytingu á aðal- og deiliskipulagi var auglýst. Meðal þess sem bent er á í athugasemdum íbúanna er að framsetning tölvuteiknaðrar yfirlitsmyndar af lóðinni sé villandi og sé ekki í neinu samræmi við veruleika bygginga við Davíðshaga og Kjarnagötu 51. Íbúarnir segja skipulagsslys í uppsiglingu. 

Skipulagsráð fjallaði um innkomnar athugasemdir við tillögurnar í lok mars og samþykkti að fresta afgreiðslu þar til viðbrögð lóðarhafa við athugasemdunum lægju fyrir. Nú hafa viðbrögð lóðarhafa borist, en afgreiðslu frestað á síðasta fundi skipulagsráðs. Fyrir fundi skipulagsráðs lá einnig tölvupóstur dagsettur 25. apríl þar sem enn er óskað eftir framlengingu á fresti til framkvæmda. Skipulagsráð samþykkti að veita frest til framkvæmda til þess dags að formlega verði búið að ljúka yfirstandandi skipulagsvinnu. 

Úr tveimur hæðum í fimm

Um er að ræða drög að breytingum á aðal- og deiliskipulagi sem Akureyrarbær auglýsti í lok febrúar. Í lýsingu aðalskipulagsbreytingar sem nær til verslunar- og þjónustusvæðis merkt VÞ13 í skipulagi kemur fram að á svæðinu verði heimiluð blönduð byggð verslunar-, þjónustu- og íbúðarsvæðis, miðað við að hús geti verið allt að fimm hæðir og íbúðir á efri hæðum. 


Séð í norður úr fjölbýlishúsi við Davíðshaga yfir umrædda lóð að Naustagötu 13. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Samhljóða athugasemdir frá íbúum áðurnefndra fjölbýlishúsa eru dagsettar 7. mars, en Akureyri.net greindi frá því um miðjan mars að lóðarhafar hafi varpað fram nýrri hugmynd um nýtingu lóðarinnar í stað þeirra hugmynda sem unnið hefur verið með hingað til. Nýja hugmyndin gengur út á að annarri heilsugæslustöð Akureyringa verði valinn staður á þessari lóð, en formleg umfjöllun um hana hefur þó ekki farið fram í skipulagsráði, öðrum nefndum eða innan bæjarkerfisins, eftir því sem næst verður komist.

Skiptar skoðanir um gæði stjórnsýslunnar

Í núgildandi skipulagi er leyfi fyrir tveggja hæða byggingu á lóðinni, þar sem gert er ráð fyrir verslun og þjónustu á neðri hæð og mögulega íbúðum á efri hæð. Akureyri.net fjallaði um málið í október þegar bæjarstjórn samþykkti að auglýsa skyldi tillögu að skipulagsbreytingum fyrir umræddan reit. Skiptar skoðanir voru í bæjarstjórn og miklar umræður um málið þá, einkum vegna þess hve mikil breyting var gerð á skipulagsskilmálum án þess að lóðin væri þá boðin út aftur. Gæði þeirrar stjórnsýslu voru dregin í efa. 

Það er einmitt þessi mikla breyting á skipulagsskilmálum, hækkun leyfilegra bygginga úr tveimur hæðum í fimm og mjög aukið byggingarmagn sem íbúarnir mótmæla. Í ítarlega rökstuddum athugasemdum íbúanna kemur fram að þeir geri ekki athugasemdir við tveggja hæða byggingu á reitnum enda væri til bóta að fá þarna þjónustukjarna, til dæmis með verslun, kaffi og eftir atvikum íbúðum á efri hæð, eins og leyfilegt er í núgildandi skipulagi. 

Hagsmunir lóðarhafa ofar hagsmunum íbúa?

Íbúarnir mótmæla því markmiði sem sett er fram í auglýsingunni, að auka byggingarmagn innan lóðarinnar verulega. Þetta segja þeir merkingarlaus rök sem slík nema ætlunin sé að auka áhuga og arð þess sem sótt hefur um lóðina. Bent er á að lóðarhafar sæki um lóð samkvæmt gildandi skipulagi á hverjum tíma og „eiga ekki, að því loknu, að geta fengið samþykki bæjaryfirvalda til umtalsverðra breytinga á því.“ Íbúarnir eigi að geta treyst því að skipulagi sé ekki breytt að marki samkvæmt meintum þörfum eða vilja lóðarhafa og verktaka.

„Því verður ekki að óreyndu trúað að bæjaryfirvöld falli í þá gryfju að láta hagsmuni lóðarhafa ganga fyrir hagsmunum íbúa og bæjarfélagsins í heild,“ segir meðal annars í athugasemdunum. 

„Skipulagsslys í uppsiglingu“

Íbúarnir gera athugasemdir við framsetningu tölvuteiknaðrar yfirlitsmyndar af lóðinni sem birt er með auglýsingunni. „Þessi mynd er ekki í nokkru samræmi við veruleikann hvað varðar þær byggingar sem standa við Davíðshaga og Kjarnagötu 51, sem rýrir trúverðurleika þessarar tillögu,“ segir meðal annars í athugasemdunum.


Tölvugerðar yfirlitsmyndir úr tillögu lóðarhafa. Til vinstri er horft til norðausturs, yfir fjölbýlishús við Davíðshaga. Á myndinni til hægri er horft til suðvesturs frá Naustahverfi, yfir Naustagötu 13 og hús við Davíðshaga og Kjarnagötu í baksýn. Íbúarnir segja þessar myndir ekki í samræmi við veruleikann.

Um staðsetningu verslunar- og þjónusturýma á lóðinni segja íbúarnir að ákvæði í skipulagsskilmálunum, þar sem engar kvaðir séu á staðsetningunni, sé afar vafasamt og geri það eitt að verkum að allar hugmyndir um svæðið virðast vera mjög á reiki.

„Að okkar mati er hér í uppsiglingu skipulagsslys,“ segja íbúarnir meðal annars í athugasemdunum. Þetta mál varði bæjarfélagið allt og þá ekki síst íbúa í nágrenninu. Þéttleiki byggðar og íbúafjöldi á svæðinu séu nú þegar fullmikil og ekki megi líta framhjá þeirri staðreynd að fimm hæða bygging á lóðinni breyti og spilli ásýnd svæðisins verulega, og þar með lífsgæðum íbúa í Haga- og Naustahverfum.

„Lóðarhafi er afar tvístígandi“

Í bókun við umfjöllun skipulagsráðs í mars minnti Sindri S. Kristjánsson (S) á að fulltrúi Samfylkingar í ráðinu hafi lýst efasemdum um fyrirliggjandi tillögur og þær efasemdir endurspeglist vel í athugasemdum og mótmælum frá stórum hópi íbúa á svæðinu.

„Út frá þeim einum og sér ætti skipulagsráð að hafna tillögum lóðarhafa nú þegar. En við bætist að á dögunum kynntu lóðarhafar enn eina breytinguna á hugmyndum sínum um nýtingu lóðarinnar, nú með vönduðum þrívíddarmyndum af heilsugæslustöð á lóðinni. Þó að slíkar hugmyndir rúmist e.t.v. tæknilega innan fyrirliggjandi tillögu að skipulagsbreytingum, þá sér hver sem vill að lóðarhafi er afar tvístígandi um hvað hann hyggst fyrir með lóðina. Úr því sem komið er tel ég því rétt að hafna öllum tillögum um breytt skipulag, gefa lóðarhafa svigrúm til að hefja uppbyggingu samkvæmt gildandi skipulagi (sem liggur fyrir nokkuð óumdeilt) eða að öðrum kosti að skila lóðinni aftur til bæjarins svo fljótt sem verða má,“ segir einnig í bókun Sindra. 

Sindri ítrekaði fyrri bókun á fundi skipulagsráðs í liðinni viku og bætir meðal annars við: „Framkomin svör lóðarhafa við athugasemdum gera lítið til að slá á þessar efasemdir. Nefnd svör lóðarhafa sýna jafnframt enn á ný hversu tvístígandi hann er varðandi áform sín samanber hugmyndir um heilsugæslustöð á reitnum sem þar eru endurtekin. Afstaða mín er óbreytt. Veita ætti lóðarhafa sanngjarnan frest til að framkvæma samkvæmt gildandi skipulagi, en að öðrum kosti að taka lóðina til baka og endurskoða uppbyggingu á svæðinu á forsendum skipulagsráðs,“ segir í bókun Sindra. 


Nýjasta hugmynd lóðarhafa gengur út á að önnur heilsugæslustöð bæjarins gæti risið að Naustagötu 13. Fulltrúi Samfylkingar í skipulagsráði segir að þó sú hugmynd rúmist ef til vill tæknilega innan fyrirliggjandi tillög sé greinilegt að lóðarhafi sé mjög tvístígandi um hvað hann vill og því rétt að hafna öllum tillögum um breytt skipulag. Myndin er úr tillögu Bergfestu sem Akureyri.net sagði frá um miðjan mars.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir (B) bókaði einnig vegna málsins á fundi skipulagsráðs í mars og benti meðal annars á að samkvæmt tillögunni væri ekki gert ráð fyrir nægum bílastæðum, en kveðst jákvæð fyrir því að breyta skipulaginu á þessari lóð til að koma til móts við það sem hún segir vera sterkt ákall íbúa í Nausta- og Hagahverfi um meira líf og þjónustu í hverfin. 

Áformin komin út fyrir öll mörk

Jón Þorvaldur Heiðarsson (L) segir athugasemdir íbúa styrkja þá skoðun sem hann hafi tjáð í skipulagsráði fyrir ári síðan. Hann segir jákvætt að leyfa íbúðir á reitnum, sérstaklega fyrir ofan atvinnuhúsnæði ef það megi verða til þess að uppbygging á reitnum verði loks að veruleika. Hins vegar séu áform um fimm hæða sérstandandi, þrjú þúsund fermetra fjölbýlishús komin út fyrir öll mörk á lóð sem ætluð sé undir verslun og þjónustu. Fimm hæðir eru of mikið að mati Jóns Þorvalds.

Gerir athugasemdir við feril málsins

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir (V) gerir athugasemdir við feril málsins og ítrekaðan framkvæmdafrest sem lóðarhafi hefur fengið. „Það getur ekki talist eðlilegt að einum aðila sé gert kleift að breyta gildandi skipulagi, úr lóð þar sem byggja má hús á einni hæð fyrir verslun og þjónustu, yfir í fimm hæða hús fyrir verslun, þjónustu og íbúðir á efri hæðum, án þess að fyrir því séu sérstök, málefnaleg og gild sjónarmið. Eðlilegt hefði verið að öllum hefði verið gefinn kostur á að sækjast eftir umræddri lóð á breyttum forsendum, enda geta þær breytingar sem hér um ræðir haft veruleg áhrif á verðmæti lóðarinnar,“ segir meðal annars í bókuninni.