Fara í efni
Fréttir

Möguleikarnir nánast endalausir

Húskubbar og sérskorið afgreitt jöfnum höndum. Mynd: Polynorth

Plastkubbahús hafa verið að hasla sér völl hér á landi, meðal annars vegna þess hvað þau eru fljótleg í byggingu, sterk og vel einangruð. Í umfjöllun Akureyri.net í gær um plastkubbaverksmiðjuna Polynorth á Óseyri kom fram að starfsmenn fyrirtækisins leggja nú nótt við dag við að koma upp veglegum lager; ætla að vera tilbúnir þegar byggingaframkvæmdir hefjast að nýju af fullum krafti þegar liðkast til í efnahagsmálum.

Kubbahúsin eru víða

Um fjölda plastkubbahúsa hérlendis segir Hjörleifu Árnason, annar eigandi fyrirtækisins, að nú þegar séu til ógrynni af þeim. „Það sést ekki á húsunum. Það er kubbað upp og svo er annað hvort múrað að utan eða klætt þannig að faktískt sést ekki að byggt er úr húskubbum. En það er alveg ótrúlegur fjöldi manna sem koma hér inn, sjá kubbana hjá okkur og segja frá því að þeir hafi verið að byggja svona hús fyrir 10-15 árum síðan.“

Starfsfólk Polynorth fær gjarnan fyrirspurnir um kostnað og tæknileg atriði, eins og burðarþol og brunavarnir Þeim var ráðlagt, eftir langa fundi á verkfræðistofum, að það væri ógerningur að vera með eitt staðlað svar í þessu. Burðarþol fer til dæmis alltaf eftir fjölda glugga, hurða og eins hvort milliloft sé heilt eða hálft, steypt eða úr timbri. Hús eru mismunandi og best að arkitektar og burðarþolssérfræðingar svari fyrir þessi atriði, segir Hjörleifur.

Það er hins vegar vel þekkt, að hans sögn, að það hafa verið reist margra hæða hús úr kubbum án vandræða. Í sambandi við brunavarnir þarf að hylja frauðið með eldhamlandi efnum eins og múr eða gipsi.

Polystyrene til vinstri og Polyethylene til hægri. Mynd: Polynorth 

Mun minni kyndingarkostnaður

Af því húskubbahús eru einangruð bæði að utan og innan dregur það verulega úr kyndingarkostnaði. Hjörleifur segir að það sé himinn og haf milli kostnaðar við upphitun plastkubbahúsa og húsa sem byggð eru úr öðrum efnivið. „Þannig að þau eru bæði fljótlegri í byggingu og ódýrari í kyndingu.“ Hjörleifur bætir við: „Til lengri tíma litið er mikill sparnaður í að byggja úr plastkubbum. Fræg er sagan af manninum sem byggði sér kubbahús fyrir allmörgum árum á Íslandi og fór þá skyndilega að fá „óvæntar“ heimsóknir frá hitaveitunni. Þeir voru að reyna að finna út hvernig hann væri að svindla á heita vatninu þar sem notkun var ekki í neinu samræmi við næstu hús. Þegar þeir áttuðu sig loks á að þetta var húskubbahús, hættu þeir að koma í heimsókn.“

Hirsch popparinn hífður í gegnum gat í þakinu. Mynd: Polynorth 

Meira um tækin

Tækin í Polynorth er margskonar og á öllum aldri. Um það segir Hjörleifur: „Gömlu vélarnar sem steypa plastið fyrir einangrunarplöturnar okkar voru smíðaðar árið 1968 á Skagaströnd og eru enn í keyrslu alla daga. Þeir kunnu að smíða vélar hérna áður fyrr! Nýjustu vélarnar eru svo Engel plastsprautuvélin okkar og hráefnið sem notuð er í hana er polyethylene. Húskubbavélin er þýsk, Pantel & Brömser og í hana er notað hráefnið polystyrene. Einnig fjárfestum við í Hirsch vél sem sér um að „poppa“ hráefnið. Hún sér um að þenja út hráefnið og gera úr því litlu frauðkúlurnar sem við notum svo í einangrunina og húskubbana. Það er líka algengt að fólk komi með brjóstagjafapúða og stóra sekki til að láta fylla á fyrir sig með frauðkúlum.“

Hjörleifur heldur áfram: „það er búið að vera skemmtilegt bras að koma öllum þessum vélum fyrir í litla bragganum okkar. Stóra Hirsch vélin er 6 metra há og eina leiðin til að koma henni inn var að skera gat á þakið og láta hana síga niður. Engel vélin er 22 tonn og tók tvo daga að tjakka hana með stórum keðjutalíum inn í húsið. Það stórsér á gólfinu eftir það ævintýri. Þrýstikraftur á Engel vélinni er 300 tonn. Þar sem ég vann áður hjá Icelandair finnst mér best að lýsa kraftinum þannig að vélin geti lyft þremur fullhlöðnum Boeing 757 flugvélum í einu, það er alvöru kraftur.“

Hér sést í tjakkinn á plastsprautuvélinni. Mynd: Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir 

Möguleikarnir nánast endalausir

Með komu nýju plastsprautuvélarinnar hingað til Akureyrar opnast ótal möguleikar að framleiða vörur úr plasti fyrir nánast hvaða markað sem er, segir Hjörleifur. „Við vitum til dæmis að allir plöntubakkar sem skógræktin kaupir koma erlendis frá. Hér komu líka aðilar frá Össur stoðtækjum og Marel um daginn að skoða vélina og velta fyrir sér möguleikum með að láta okkur framleiða fyrir sig. Möguleikarnir eru nánast endalausir með svona öfluga vél.“

Öll þessi tæki taka gríðarlegt rafmagn en 1 megawatta strengur liggur inn í húsnæði fyrirtækisins. Flestar rafmagnssnúrur þar innanhúss eru á stærð við handlegg. Rafmagnið er líka ein aðalástæða þess að það er erfitt að flytja verksmiðjuna um set. Bæði RARIK og Norðurorka hafa sagt þeim að það sé nánast ómögulegt að fá svona mikið rafmagn ef þeir færu eitthvað annað.

Nagli vinnur eftir hádegi í Polynorth og er alltaf starfsmaður mánaðarins. Hér liggur hann á Fatboypúðum sem nú eru staðsettir í Hrafnagilsskóla. Mynd: Polynorth 

Endurnýting / Recycle

„Frauðplast er svo slæmt fyrir náttúruna af því að það brotnar ekki niður“.

Þessi setning heyrist oft, en Hjörleifur er á öðru máli og útskýrir: „Allur afskurður sem fellur til þegar við erum að skera í sérpantanir er hakkaður niður og endurnýttur. Öllu sem gengur af hjá þeim sem kaupa af okkur plast er hægt að skila, það er líka hakkað niður og endurnýtt. Meira að segja umbúðir utan af hráefninu okkar eru hakkaðar niður og endurnýttar samkvæmt kúnstarinnar reglum. Sumir verktakar hafa áttað sig á þessu og snúast á sveif með okkur að vernda náttúruna og minnka sóun. Þeir koma með allt plast sem notað er til að hlífa ísskápum, ofnum og þvílíku til okkar í staðinn fyrir að henda því í Terra.“

Hjörleifur nefnir að fyrir nokkrum árum hafi 80 ára gamalt hús í Þýskalandi verið rifið, hús sem hafði verið einangrað með frauðplasti.

„Plastið var sent á verkfræðistofu og sett í þrýstingsmæli og hitatap var einnig mælt. Það mældist 100% í báðum prófunum, hafði ekki tapað neinum gæðum á öllum þessum árum. Vandamálið er ekki plastið, vandamálið er fólkið sem umgengst plastið.“

Stærsta vandamál mannkyns í dag er án efa rusl, segir Hjörleifur. „Við leggjum okkar af mörkum til að minnka það.“