Fara í efni
Fréttir

Vildu blása meiri lífi í gamla iðnaðarbæinn

Plastkubbahús hafa verið að hasla sér völl hér á landi, meðal annars vegna þess hvað þau eru fljótleg í byggingu, sterk og vel einangruð.

Starfsfólk í plastkubbaverksmiðjunni Polynorth á Óseyri leggur nú nótt við dag við að koma upp veglegum lager, að sögn Hjörleifs Árnasonar, annars eigenda fyrirtækisins, í samtali við Akureyri.net

Nýta tímann til að fylla á lagerinn

Þó að hægt hafi verulega á byggingaframkvæmdum vegna verðbólgu er spurn eftir húskubbum gífurleg, segir Hjörleifur. Margir hafa samband og sýna mikinn áhuga. En fólk heldur að sér höndum þangað til liðkast til í efnahagsmálum. Starfsmenn Polynorth ætla að nýta þann tíma til að fylla á lagerinn og vera tilbúnir þegar byggingaframkvæmdir hefjast að nýju af fullum krafti.

Hjörleifur Árnason og Hrafn Stefánsson keyptu verksmiðjuna í apríl 2021. Hjörleifur er viðskiptafræðingur og matreiðslumaður að mennt og hefur verið í fyrirtækjarekstri undanfarin ár, meðal annars í veitingageiranum. Hrafn er vélfræðingur og hefur reynslu af plastframleiðslu bæði hér heima og erlendis.

Hjörleifur við plastkubbavélina. Mynd: Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir 

„Strax í upphafi var stefnan sett á að kaupa vélar og láta framleiða mót svo hægt væri að byrja á framleiðslu húskubba í höfuðstað Norðurlands, enda löngu tímabært að blása meira lífi í gamla iðnaðarbæinn Akureyri“, segir Hjörleifur og bætir við: „Frauðkubbavélin er ný hágæða vél frá Þýskalandi og mótin í hana voru smíðuð hjá frændum vorum í Danmörk. Plastsprautuvélin var keypt notuð frá Austurríki og voru mótin í hana smíðuð hjá Dodda galdramanni í stálsmiðjunni Ásverk á Akureyri.“

Polynorth er eina verksmiðjan á Íslandi sem framleiðir frauðkubba til húsbygginga.

Engel plastsprautuvélin. Mynd: Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir 

Ekki ný hugmynd

Á árunum rétt fyrir 2000 og allt til ársins 2015 hafa húskubbar í einni eða annarri mynd verið í framleiðslu á Íslandi. Þar voru í fararbroddi fyrirtækin Varmamót og Víking Kubbar. Framleiðslan var flókin, vélarnar gamlar og viðhald mikið en eftirspurnin var gríðarlega mikil alveg fram á síðasta dag.

Árið 2011 var svo stofnað á Íslandi fyrirtæki sem flytur inn húskubba erlendis frá og eru fleiri aðilar einnig að bætast í þann hóp. Eigendum Polynorth fannst hins vegar galið að flytja húskubba, sem eru 98% loft, á milli landa með tilheyrandi mengun og biðtíma svo þeir voru ekki lengi að grípa tækifærið þegar verksmiðjan Polynorth fór á sölu og slógu til.

Veggkubbar 140 mm. Mynd: Polynorth 

Mikil skekkja milli fólksfjölgunar og nýbygginga

„Frá 1. janúar 2022 til 1. janúar 2023 fjölgaði Íslendingum um 11.500 manns sem er mesta fjölgum Íslendinga frá upphafi talninga og reiknað er með að þessi tala hækki á næstu árum,“ segir Hjörleifur og bætir við: „Húsnæðis og mannvirkjastofnun Íslands gerir ráð fyrir að 3.169 íbúðir komi á markaðinn árið 2023. Því er alveg ljóst að það þarf heldur betur að spýta í lófana og koma með lausnir sem eru einfaldar, fljótlegar og ódýrar. Þar komum við sterkir inn. Rúsínan í pylsuendanum er svo að mygla er nær óþekkt vandamál í kubbahúsum.“

Leggst vel í stóru verktakana

Verktakar á Akureyri hafa komið að máli við eigendur Polynorth og segjast ætla að skipta alfarið yfir í sökkulkubba á næstu misserum. „Það kom til mín verktaki síðasta sumar sem sagði að það tæki þá hátt í tvær vikur að slá upp sökkli fyrir stórt raðhús á gamla mátann. Ef hann myndi skipta yfir í kubbana þá gætu þeir gert þetta á tveimur dögum“, segir Hjörleifur. „Það er gríðarlegur sparnaður í manntíma og flýtir líka fyrir heildar-byggingartíma. Hjörleifur bætir við: „Auk þess er endingartími plastkubbahúsa áætlaður að minnsta kosti 300 ár áður en sinna þarf viðhaldi.“

Sýningarveggur á leið á iðnsýningu. Mynd: Polynorth

Nú þegar er verið að byggja raðhús ofan á sökkla frá Polynorth á Dalvík og á Árskógssandi og þeir hafa fengið mikið lof fyrir kubbana frá þeim aðilum. Fleiri verkefni eru í gangi og má þar t.d. nefna stórt einbýlishús í Vaðlaheiði, bílskúr í Lyngholti og búið er að skipta út vegg í gömlu húsi í Hrísey, svo fátt eitt sé nefnt.

„Við erum gríðarlega stoltir og ánægðir með þessar viðtökur“, segir Hjörleifur.

Kubbarnir

Tvær megin tegundir eru framleiddar í verksmiðjunni. Annars vegar sökkulkubbar þar sem steypuþykktin er 215 mm og hins vegar veggkubbar þar sem steypuþykktin er 140 mm. Sama þykkt er á einangrun á kubbunum, 70 mm að utan og 50 mm að innan.

Kubbarnir raðast einfaldlega upp eins og Legokubbar og stálið lagt ofan í þá, eitt lag í einu. Skorið úr fyrir gluggum og hurðum og steypt í. Gott er að stífa kubbana af með tommu sex borðum og er reglan einfaldlega sú að því fleiri stoðir, þeim mun líklegra er að ekkert hreyfist þegar steypunni er hellt í mótin.

„Kubbarnir eru fisléttir og hægur vandi að bera þá til og frá allan daginn án þess að mæðast“, segir Hjörleifur. „Á kubbunum eru upphleyptir punktar, nokkurs konar blindraletur, þar sem maður getur skrúfað stýfurnar í gott hald. Það mætti jafnvel halda því fram að kubbarnir séu svo einfaldir í uppsetningu að blindur maður gæti smíðað sér hús án vandræða. Við mælum hins vegar alltaf með fullsjáandi smiðum með full réttindi í húsbyggingum“, segir Hjörleifur og kímir.

  • Á MORGUNMöguleikarnir nánast endalausir