Minnismerkið verður við Drottningarbraut

Fyrirhugað er að minnismerki um síðutogara og síðutogarasjómenn verði staðsett á svæði við útivistarstíginn meðfram Drottningarbraut, skammt norðan við svæði siglingaklúbbsins Nökkva. Skipulagsráð Akureyrarbæjar samþykkti þetta á fundi 10. júlí en endanlegri útfærslu og ákvörðun er vísað til bæjarstjórnar, að undangenginni umfjöllun umhverfis- og mannvirkjaráðs.
Hópur áhugafólks um að þessari minningu skyldi haldið á lofti hafði áður óskað eftir að minnismerkið yrði staðsett við Hof en á fundi skipulagsráðs í maí var skipulagsfulltrúa falið að ræða við umsækjendur um aðrar mögulegar staðsetningar. Þau samtöl leiddu til þess að tillagan að staðsetningin við útivistarstíginn var lögð fram.
Mynd: Skipulagssvið Akureyrarbæjar
Í frétt akureyri.net um þetta mál eftir fund skipulagsráðs í maí kemur fram að minnismerkið sé allt gert úr stáli, smíðað hjá Slippstöðinni á Akureyri, og að áferð þess verði áþekk áferðinni á minnismerkinu um síldarstúlkurnar sem er á Siglufirði.
Eftir því sem akureyri.net kemst næst kviknuðu fyrst hugmyndir um að láta gera minnisvarða um síðutogarana árið 2011, þegar Sæmundur Pálsson lét gamlan draum rætast og stóð fyrir hátíð síðutogarasjómanna á Akureyri. Í frétt mbl.is um viðburðinn kemur fram að um 180-190 manns hafi sótt hátíðina og að Geir Kristni Aðalsteinssyni forseta bæjarstjórnar Akureyrar hafi þar verið afhent plagg með tillögu um að minnisvarði um síðutogarana og síðutogarasjómenn verði reistur. Og nú stefnir allt í það að þessi draumur verði loksins að veruleika.