Fara í efni
Fréttir

Minjasafnið sér um að reka Smámunasafnið

Sigríður Rósa Sigurðardóttir, safnstýra Smámunasafnsins,og Guðni Th. Jóhannesson þegar forseti lýðveldisins kom í heimsókn í safnið í mars síðastliðnum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Smámunasafn Sverris Hermannssonar í Sólgarði verður opnað á ný í vikunni.

Eyjafjarðarsveit og Minjasafnið á Akureyri hafa gert með sér samning um rekstur Smámunasafnsins og verður það opið í sumar frá 22. júní til 20. ágúst frá miðvikudegi til sunnudags klukkan 13.00 - 17.00.

Mikil viðbrögð – mikill áhugi

Mikil viðbrögð urðu við þeirri ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar að reka safnið ekki áfram og selja Sólgarð. Þá kom í ljós að mikill áhugi var í samfélaginu um að hafa Smámunasafnið áfram opið og Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri, vonar að sá áhugi hafi ekki dvínað. „Við hlökkum til að taka á móti gestum í sumar. Vonandi eru líka einhverjir sem lýstu miklum velvilja til safnsins til í að aðstoða við að halda því opnu í sumar,“ segir Haraldur í samtali við Akureyri.net. Sigríður Rósa Sigurðardóttir, safnstjóri í Sólgarði síðustu ár, verður áfram í brúnni í sumar „en nú vantar fólk í afleysingu með Siggu,“ segir Haraldur.

Hjónin Kristján Vilhelmsson og Kolbrún Ingólfsdóttir keyptu Sólgarð af Eyjafjarðarsveit fyrr á árinu. Hér eru þau ásamt Finni Yngva Kristinssyni, sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar, eftir að kaupsamningur var undirritaður. Mynd af vef sveitarfélagsins.

Margar góðar hugmyndir

Eyjafjarðarsveit auglýsti eftir áhugasömum rekstraraðilum á sínum tíma, margir lýstu yfir áhuga en ekkert varð úr að sinni. Minjasafnið hjálpar því sveitarfélaginu við að halda safninu opnu í sumar, eins og Haraldur orðar það. „Í umræðunni um Smámunasafnið komu upp margar góðar hugmyndir og við ætlum að grípa að minnsta kosti eina þeirra í sumar. Til stendur að halda sýningar í suðursal Smámunasafnsins og heldur Samúel Jóhannsson, myndlistarmaður úr Eyjafjarðarsveit, fyrstu sýninguna,“ segir Haraldur Þór.

Í haust verður Minjasafnið með sýningu á ljósmyndum og gripum sem safnið varðveitir en eiga uppruna sinn í Eyjafjarðarsveit, að sögn Haraldar. „Þetta gerum við í góðu samkomulagi við núverandi húseigendur,“ segir hann og bætir við: „Við horfum svo sannarlega björtum augum fram á sumarið!“

Sigríður Rósa Sigurðardóttir og Hollywood stjarnan Jodie Foster þegar leikkonan skoðaði Smámunasafnið fyrr á árinu. Hún var þá við tökur á sjónvarpsþáttaröðinni True Detective á Dalvík og í Eyjafirði. Myndina tók Alexandra Hedison, eiginkona Foster. 

Kristján og Kolbrún keyptu húsið

Hjónin Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja, og Kolbrún Ingólfsdóttir keyptu fyrr á árinu félagsheimilið Sólgarð af sveitarfélaginu. Um leið varð ljóst að Smámunasafn Sverris Hermannssonar yrði áfram í húsinu í óbreyttri mynd næsta áratuginn hið minnsta eftir að óvissa hafði ríkt um það.

„Við kaupum húsið og gerum jafnframt samkomulag við Eyjafjarðarsveit um að Smámunasafnið fái inni í húsnæðinu næstu 10 ár,“ sagði Kristján í samtali við Akureyri.net á sínum tíma. Þá kom fram að safnið yrði í húsinu endurgjaldslaust allan þennan tíma.

Fyrri fréttir Akureyri.net:

Kristján og Kolbrún kaupa Sólgarð – framtíð Smámunasafnsins borgið

Jodie Foster yfir sig hrifin af Smámunasafni Sverris