Fara í efni
Fréttir

Mikilvægt að helgisagnir færist milli kynslóða

Hildur Eir Bolladóttir sóknarprestur í Akureyrarkirkju. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Séra Hildi Eir Bolladóttur, sóknarpresti í Akureyrakirkju, varð tíðrætt um náðina í hátíðarmessu í kirkjunni í dag.  „Náð er svo fagurt orð. Finnurðu hvað það er mjúkt og hlýtt og huggunarríkt,“ sagði hún meðal annars.

Hildur Eir koma víðar við.

„Við búum í veröld sem er mikið í því að hræða fólk og einangra en um leið er líka mikið óþol gagnvart trúarbrögðum,“ sagði hún. „Óþolið gagnvart trúarbrögðunum er sumpart skiljanlegt, ýmsar kirkjudeildir, kaþólskar sem lútherskar svo einhverjar séu nefndar hafa þurft að endurskoða margt og mikið í starfi sínu og framgöngu og hinn upplýsti nútímamaður hefur eðlilega haft við margt að athuga,“ sagði Hildur. „Það stóð heldur aldrei neitt annað til með stofnun kirkjunnar, menn áttu að hafa við margt að athuga.“

Kirkjudeildir væru samansafn ófullkomins fólks sem reyni að finna út úr hlutunum „og öll erum við þar börn hvers tíma. Þetta er ekki sagt til afsökunar heldur skilnings á því að kirkjan er skjól hins breyska manns. Hún sækir hins vegar tilgang sinn til helgisagna sem eru gríðarlega merkingarbærar og mikilvægar. Þess vegna er eitt það versta sem gæti gerst ef kirkjan fjaraði út, það að sögurnar færðust ekki milli kynslóða.“

Smellið hér til að lesa ræðu séra Hildar í heild.