Fara í efni
Fréttir

Miðgarðakirkja komin fram úr áætlunum

Mynd tekin þegar Grímseyinigar komu saman í kirkjubyggingunni ásamt fleirum þann 22. september 2022. Ljósmynd: María Helena Tryggvadóttir

Framkvæmdir við byggingu nýrrar Miðgarðakirkju í Grímsey í stað þeirrar sem brann til grunna fyrir tæpum tveimur árum hafa farið fram úr kostnaðaráætlunum, verkið hefur tekið lengri tíma en lofað var, verkefnisstjóri hefur sagt sig frá verkinu og smiðum verið sagt upp.

Þetta kom fram í kvöldfréttum í sjónvarpi Rúv í gær. Þar var jafnframt fullyrt að Grímseyingum hafi verið lofað að ári eftir brunann, þann 22. september 2022, yrði kirkjubyggingin orðin fokheld, en sú sé þó ekki raunin. Engu að síður var haldin samkoma í kirkjunni þann dag til að fagna því að byggingin væri orðin fokheld.  

Hér er mögulega spurning um hvort ekki hafi veirð átt við að framkvæmdum væri ekki lokið, fremur en að kirkjan væri ekki orðin fokheld. Hvort heldur er þá er ljóst að framkvæmdir hafa tekið lengri tíma og kostað meira en áætlað var.

Upphafleg kostnaðaráætlun var upp á rúmar 103 milljónir króna, en nú þegar hafa farið yfir 120 milljónir króna í verkið, um 17% umfram áætlun, og enn ýmislegt ógert. Arkitekt verksins er enn að störfum eftir því sem fram kom í fréttinni, en þegar Rúv leitaði skýringa hjá arkitektinum, verkefnisstjóra og smiðum vísuðu viðkomandi hver á annan.

Í frétt Rúv var rætt við Svafar Gylfason, íbúa í Grímsey sem jafnframt situr í sóknarnefndinni, og sagði hann að Grímseyingum finnist að ógætilega hafi verið farið með fjármagn, sem bæði fékkst með ríkisstyrkjum og framlögum almennings víða að úr heiminum. Dýr efniviður hafi verið valinn, gegn vilja heimamanna, og vinna hafi tekið mun lengri tíma en áætlað var. Svafar gagnrýndi jafnframt frágang á þaki byggingarinnar í viðtalinu í sjónvarpsfréttum í gær og sagði Grímseyinga ósátta við vankanta sem eru á byggingunni.

Grímseyingar eru enn að safna upp í byggingarkostnaðinn og eru meðal annars með spjald á staur framan við kirkjuna með texta á ensku eins og sást í frétt sjónvarpsins í gær.