Fara í efni
Fréttir

Engu að treysta í samskiptum við ríkið

Hjúkrunarheimilið Lögmannshlíð við Vestursíðu í Glerárhverfi.

Akureyrarbær hefur lengi séð um rekstur hjúkrunarheimilanna í bænum, Hlíðar og Lögmannshlíðar fyrir ríkið, en sagði samningnum upp á síðasta ári. Bærinn gat ekki staðið undir þeim kostnaði, sem tilkominn var vegna vanfjármögnunar ríksins, ásamt kostnaði við hin ýmsu verkefni sem sveitarfélaginu ber lagaleg skylda til að sinna. Hins vegar var ekki einfalt mál að koma rekstri heimilanna aftur til ríkisins, sem ber ábyrgðina á rekstrinum.

Þetta kemur í grein sem Akureyri.net hefur borist frá bæjarstjórn, sem svar við grein Sigurðar J. Sigurðssonar, fyrrverandi bæjarfulltrúa, sem birtist á þriðjudaginn.

Sigurður sagði bæjarbúa eiga rétt á að vita hvað valdi því að Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) sjái ekki sömu augum og bæjaryfirvöld ástæður langvarandi rekstrarhalla. „Bæjarbúar eiga líka rétt á því að vita af hverju bæjarstjórn hefur til fjölda ára greitt úr þeirra sjóði framlög til þessara stofnana. Bæjarsjóður er ekki uppspretta auðs og ekki hlutverk hans að greiða rekstur ríkisins í þessum málaflokki ef rétt reynist,“ sagði Sigurður.

Í grein bæjarstjórnar kemur eftirfarandi meðal annars fram:

  • Við upphaf kjörtímabilsins 2014 til 2018 hófst umræða í bæjarstjórn um halla á rekstri Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA) og mikilvægi þess að bregðast við.
  • 2015 ákvað bærinn að láta KPMG gera úttekt á þjónustu sveitarfélagsins við aldraða og starfsemi Öldrunarheimila Akureyrar.
  • Niðurstaða KMPG, í skýrslu 2016: hallinn af rekstrinum skyldi lögum samkvæmt greiddur af ríkinu enda er lögbundið hlutverk þess að standa straum af kostnaði við hjúkrunarheimili í landinu.
  • Á sama tíma var unnið að samningum milli ríkis og sveitarfélaga um uppgjör lífeyrisskuldbindinga er sneru að hjúkrunarheimilum. Skilyrði þess að slíkt uppgjör færi fram var að bærinn myndi annast rekstur ÖA til ársloka 2018.
  • Í samningunum var kveðið á um að ríkið myndi leggja meira fjármagn til öldrunarþjónustu í landinu, farið yrði í saumana á húsnæðismálum hjúkrunarheimila auk uppgjörs á lífeyrisskuldbindingum.
  • Það var mat sérfræðinga bæjaryfirvalda að rétt væri að taka þessum samningi og var þá ekki síst horft til uppgjörs lífeyrisskuldbindinga.
  • Samhljómur var í bæjarstjórn um að halda áfram með reksturinn og leggja til hliðar í bili a.m.k., allt tal um uppsögn og skil á starfseminni til ríkisins.
  • Bæjarstjórn ákvað þrátt fyrir þetta að halda á lofti kröfu um að hallarekstur fyrri ára yrði gerður upp.
  • Samantekt KPMG leiddi í ljós að greiðslur bæjarins með rekstri ÖA á árunum 2012-2016 hafi numið um 843 milljónum króna á verðlagi ársins 2016.
  • Akureyrarbær gerðu kröfu á ríkið um að það greiddi þann kostnað.
  • Ríkið hafnaði kröfu bæjarins alfarið og því var ákveðið að kanna hvort rétt væri að fara með málið fyrir dómstóla.
  • Garðabær hafði þá þegar farið með svipað mál af stað fyrir dómstólum og ákveðið var í samráði við lögmenn að bíða eftir niðurstöðu þess máls.
  • Niðurstaða Hæstaréttar í júní 2020 var sú að kröfu Garðabæjar var hafnað og því ljóst að lengra yrði ekki komist með kröfu Akureyringa.
  • Árið 2018 var undirritaður viðbótarsamningur við heilbrigðisráðuneytið, til ársloka 2020, þar sem gerðar voru áherslubreytingar á rekstri.
  • Vonir voru bundnar við að með nýrri og breyttri nálgun mætti ná fram hagræðingu og jafnvægi í rekstrinum. Svo fór ekki.
  • Þess vegna var ákveðið í apríl í fyrra að segja upp samningi við ríkið um rekstur heimilanna á Akureyri.
  • Sigurður veltir upp þeirri spurningu hvað valdi því að rekstur leggist með auknum þunga á sveitarfélagið. Bæjarstjórn segir að árin 2012 til 2016 hafi daggjöld tæpast dugað fyrir launum, hvað þá öðrum rekstrarkostnaði. Kjarasamningar hjá sveitarfélögum séu dýrari en á almennum markaði þegar horft er til hjúkrunarheimila, allt að 10%

Í grein bæjarstjórnar segir að því miður hafa samskiptin við ríkisvaldið verið með þeim hætti í þessu máli að þar sé engu að treysta og því hafi enginn annar kostur verið í stöðunni en að endurnýja ekki samning um rekstur ÖA, þótt það hafi vissulega verið þungbær ákvörðun.

Smellið hér til að lesa grein bæjarstjórnar

Smellið hér til að lesa umfjöllun um málið á Akureyri.net

Smellið hér til að lesa grein Sigurðar J. Sigurðssonar