Fara í efni
Fréttir

Sjúkratryggingar harðlega gagnrýndar

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, var ómyrk í máli á fundi bæjarstjórnar í gær, þegar hún fjallaði um samskipti bæjarins við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) í kjölfar þess að Akureyrarbær sagði upp rekstrarsamningi um hjúkrunarheimili bæjarins á síðasta ári.

Bæjarstjóri gagnrýndi vinnubrögð SÍ harðlega og sagði það hafa valdið sér miklum vonbrigðum þegar í ljós kom að forstjóri stofnunarinnar starfaði ekki af heilindum. Stofnunin hefði augljóslega ætlað sér að pína sveitarfélögin fjögur, sem höfðu sagt upp samningum, til að halda áfram rekstri hjúkrunarheimilanna, hvað sem tautaði og raulaði.

Svo fór að Akureyrarbær réð vana samningamenn á lögfræðistofu til að gæta hagsmuna sveitarfélagsins gagnvart Sjúkratryggingum Íslands!

Eins og kom fram hér á Akureyri.net í gær, upplýsti formaður bæjarráðs, að Akureyrarbær hefði greitt 1,7 milljarða króna vegna reksturs hjúkrunarheimila bæjarins á árunum 2012 til 2020, vegna þess að framlög ríksins dugðu ekki. Ber ríkinu þó að greiða allan kostnað við reksturinn. Smellið hér til að lesa þá frétt. 

Upplýsingar bæjarstjórans á fundi gærdagsins voru með nokkrum ólíkindum. Hér er stiklað á stóruAkureyri.net feitletrar nokkur atriði, til að vekja sérstaklega athygli á þeim. Hægt er að smella á hlekk neðst í fréttinni til að lesa ræðu Ásthildar í heild. 

  • Akureyrarbær tilkynnti síðasta vor að rekstrarsamingur við Sjúkratryggingar Íslands um hjúkrunarheimilin í bænum yrði ekki endurnýjaður, „enda stóð ekki til að hækka framlag ríkisins til rekstrar hjúkrunarheimila,“ sagði bæjarstjórinn.
  • „Auk Akureyrarbæjar hafa Vestmannaeyjabær, Höfn í Hornafirði og Fjarðabyggð ákveðið að endurnýja ekki samninga sína við ríkið um rekstur hjúkrunarheimilanna. Fleiri eru að íhuga stöðu sína enda glíma flest ef ekki öll hjúkrunarheimili sem rekin eru af sveitarfélögunum við mjög alvarlegan rekstrarvanda.“
  • Undirbúningur að yfirfærslunni hófst um mitt sumar, fyrst um sinn miðaði verkinu vel „og voru aðilar sammála um að láta yfirfærsluna ganga greiðlega fyrir sig“. Í ágúst var tilkynnt að Heilbrigðisstofnun Norðurlands [HSN] tæki við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar. 
  • Haft var að leiðarljósi að breytingarnar bitnuðu ekki á velferð íbúa eða stöðu starfsmanna. 
  • „Í haust breyttust forsendur óvænt og var tilkynnt að HSN myndi ekki taka við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar. Engar upplýsingar voru gefnar um hver ætti að taka við keflinu í stað HSN eða hvers vegna þessi stefnubreyting varð. Voru þetta vægt til orða tekið talsverð vonbrigði, sem settu allt ferlið í uppnám.“ 
  • Í desember var samið um framlengingu á samningnum milli Akureyrarbæjar og Sjúkratrygginga Íslands, eftir að Akureyrarbær leitaði til ráðherra heilbrigðismála, fjármálaráðherra og forseta Alþingis um lausn mála, „enda lá þá ljóst fyrir að Sjúkratryggingar gætu ekki tekið við rekstrinum í árslok.“ 
  • „Akureyrarbær óskaði eftir því að strax yrði farið í að undirbúa aðilaskipti þannig að þau mættu ganga greiðlega fyrir sig. Því erindi var ekki svarað. Nú var staðan orðin sú að segja má að SÍ hafi virt Akureyrarbæ að vettugi og svarað erindum okkar seint eða alls ekki.“ 
  • Sveitarfélögin sem sögðu upp samningum um rekstur hjúkrunarheimila á síðasta ári, Akureyrarbæjar, Vestmannaeyjabær, Höfn og Fjarðabyggð, höfðu samráð sín á milli og upplýstu Samband íslenskra sveitarfélaga um gang viðræðna.
  • „Í desember var orðið ljóst að trúnaðarbrestur hafði orðið á milli SÍ og sveitarfélaganna sem um ræðir ... Forsvarsmenn SÍ báru óljósar upplýsingar og staðhæfingar á milli aðila og var tilgangurinn augljóslega sá að pína sveitarfélögin til að halda áfram rekstri hjúkrunarheimilanna hvað sem tautaði og raulaði. Það hlýtur að teljast mjög alvarlegt þegar opinber stofnun verður uppvís að slíkum vinnubrögðum ...“ 
  • „Ég taldi að viðræðurnar við SÍ færu fram af fullum heilindum en annað kom á daginn þegar sveitarfélögin báru saman bækur sínar og ljóst var að forstjóri SÍ bar ólíkar upplýsingar á milli aðila. Þetta hleypti eðlilega meiri hörku í samskiptin á milli, annars vegar sveitarfélaganna, og hins vegar SÍ. Því var loks ákveðið að fá til liðs við Akureyrarbæ vana samningamenn og gætir Heiðar Ásberg Atlason hæstaréttarlögmaður hjá Logos lögmannsþjónustu nú hagsmuna Akureyrarbæjar gagnvart Sjúkratryggingum Íslands.“ 
  • „Sjúkratryggingar Íslands tilkynntu loks 26. janúar síðastliðinn að auglýsa ætti eftir nýjum aðilum til að sjá um rekstur öldrunarheimila. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir hefur sveitarfélagið ekki fengið upplýsingar um hvernig standa eigi að aðilaskiptum eða undirbúningi.“ 
  • Auglýsingin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 30. janúar síðastliðinn og frestur fyrir áhugasama rekstraraðila til að tilkynna sig til Sjúkratrygginga Íslands rann út 15. febrúar, á mánudaginn.
  • Akureyrarbær hefur ekki fengið frekari upplýsingar um nánari útfærslur eða næstu skref. Hins vegar á bærinn fund með Sjúkratryggingum í dag, miðvikudag, og til umræðu verða helstu atriði yfirfærslunnar, starfsmannamál og húsnæðismál.
  • „Akureyrarbær hefur ítrekað óskað eftir svörum, ýtt á eftir því að vinnan verði kláruð og jafnframt lagt til tillögur um næstu skref. Sú vinna, sem Sjúkratryggingar hófu nú bara rétt um áramót er vinna sem þeir hefðu átt að hefja strax um leið og við sögðum upp samningnum. En öllum óskum okkar um svör hefur lítið eða ekki verið sinnt af hálfu Sjúkratrygginga, og engar tillögur lagðar fram um tímasetta áætlun svo ljúka megi málinu farsællega, þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um. Rétt er að geta þess að Akureyrarbær sendi áætlun um viðræður strax í júlí en því bréfi var aldrei svarað.“ 

Smellið hér til að lesa ræðu Ásthildar á bæjarstjórnarfundinum í gær.