Fara í efni
Fréttir

Líkan afhjúpað á 60 ára afmæli Húna II

Sigfús Ólafur Helgason, safnstjóri Iðnaðarsafnsins á Akureyri, og Elvar Þór Antonsson eftir að þeir skrifuðu undir samning utan við safnið; framan við Watnehúsið - þar sem skipasmíðastöð KEA var á sínum tíma á Oddeyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Samið hefur verið við Elvar Þór Antonsson á Dalvík um að smíða líkan af Húna II. Líkanið verður tilbúið fyrir mitt næsta ár og verður afhjúpað 22. júní, þegar 60 ára verða síðan Húni snerti hafflötinn fyrsta sinni framan við Skipasmíðastöð KEA á Oddeyri.

Húni ll er eini báturinn sem enn er til óbreyttur af þessari gerð á Íslandi og því sannarlega verðugt verkefni að eiga líkan af honum, sagði Sigfús Ólafur Helgason, safnstjóri Iðnaðarsafnsins á Akureyri, þegar hann skrifaði undir samning við Elvar Þór í dag fyrir hönd safnsins. 

Nokkrir hollvinir Húna II og Iðnaðarsafnsins eftir undirritun samningsins í dag. Sitjandi eru Sigfús Ólafur Helgason safnstjóri Iðnaðarsafnsins og Elvar Þór Antonsson sem mun smíða líkanið. Standandi eru, frá vinstri: Gunnar Gíslason, Sigurður Bergþórsson, Þorsteinn Pétursson, Egill Sveinsson, Gunnar Bachman Gestsson, Jakob Tryggvason og Þorsteinn E. Arnórsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Verndun Húna á sínum tíma var mikil menningar-björgunaraðgerð sem margir komu að, fyrst ber að nefna hjónin Þorvald Skaftason og Ernu Sigurbjörnsdóttur sem segja má að hafi varðað veginn og svo eftir að Húni kom hingað í bæinn hafi einstaklingar, félög sem og Akureyrarbær tekið við kyndlinum og allar götur síðan að skipið kom til Akureyrar hafi það fengið ótrúlega ástúð og væntumþykju hjá Hollvinum Húna og það er alveg dásamlegt að vita að svona félagskapur sem Hollvinir eru, skuli vera til. Ég segi hiklaust að þótt við séum að heiðra minningu þeirra manna er vörðuðu veginn í skipasmíðum hér á Akureyri fyrrum, er þessi framkvæmd sem við nú skrifum undir í dag ekki síður þakklætisvottur til Hollvina Húna fyrir elskuna sem þeir hafa sýnt skipinu alla tíð. Þær þakkir eiga þeir svo sannarlega skilið,“ sagði Sigfús Ólafur í ávarpi í tilefni dagsins.

„Til að þetta geti gerst hafa nokkrir aðilar, fyrirtæki, félög og einstaklingar lagt fjármagn til þessa verkefnis og það ber svo sannarlega að þakka, án þessa stuðnings værum við ekki í þessum sporum hér í dag,“ sagði Sigfús Ólafur. Hann vakti athygli á því að söfnunin fyrir líkaninu er enn í gangi. „Margt smátt verður að líkaninu,“ sagði safnstjórinn.

Smellið hér til að lesa ávarp Sigfúsar Ólafs.

Húni II er glæsilegt skip. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson