Fara í efni
Fréttir

Leiðindaveður en engin vandræði

„Útsýnið“ til Akureyrar frá bílastæði í Vaðlaheiði gegnt bænum laust eftir hádegi. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Leiðindaveður er á Akureyri en þó töluvert frá því sem bæjarbúar kalla stundum brjálað veður eða snarvitlaust. Hvöss norðanátt er en ekki mikil úrkoma þessa stundina. Hitastig er við frostmark. Jörð var hvít í morgun en síðan hefur rignt nokkuð og annars slagið verið slydda. Engin vandræði eru vegna veðursins, sjór hvergi gengið á land eða óhöpp orðið svo vitað sé. Fáir eru á ferli í bænum enda ákjósanlegt inniveður.

  • Rauð viðvörun er áfram í gildi fyrir Norðurland eystra, til kl. 20.00 í kvöld.

Samkvæmt henni verður norðan stormur eða rok, 20-28 metrar á sekúndu með mjög mikilli úrkomu, slyddu við ströndina, annars snjókomu. Miklar líkur eru á að ísing setjist á raflínur. 

Færð gæti spillst og komið til lokana skv. upplýsingum frá Vegagerðinni.

  • Hvað þýðir rauð viðvörun? Miklar líkur eru á veðri sem hefur mjög mikil samfélagsleg áhrif, eða slíkt veður er yfirstandandi. Einstaklega áköfum og hættulegum veðurskilyrðum er spáð. Búast má við miklum skemmdum, líkur á slysum eru miklar og veðrið ógnar lífi. Viðbúið að samgöngur lokist og aðgengi að innviðum/þjónustu skerðist.

Hér eru nokkrar myndir teknar eftir hádegi. Akureyri.net mun að sjálfsögðu fylgjast með framvindu mála.

Eigendur sumra fyrirtækja á Oddeyri, þar sem mikið tjón varí flóðunum í lok síðasta mánaðar, hlóðu sandpokum við dyr eða gerðu aðrar ráðstafanir til að draga úr hættu á að vatn flæði inn í hús.

Allt var með nokkuð kyrrum kjörum á athafnasvæði Slippsins.

Ekið upp brekkuna ofan við Skautahöllina upp í Naustahverfi.

Hressilega blæs úr norðri og engir bréfberar á ferð í dag ...

Togarabryggjan við Útgerðarfélag Akureyringa.