Fara í efni
Fréttir

Kirkjutröppurnar lokaðar næstu mánuði

Kirkjutröppurnar eru mikið notaðar, ekki síst þegar stór skemmtiferðaskip koma til Akureyrar. Góðan hluta sumars og fram á haust þurfa ferðamenn væntanlega að fara aðra leið upp í kirkju og Lystigarð en um tröppurnar sjálfar. Ljósmyndir: Haraldur Ingólfsson

Framkvæmdir við viðgerð á kirkjutröppunum og næsta umhverfi ættu að geta hafist á næstu dögum, en verksamningur við Lækjarsel ehf. hefur þó ekki enn verið undirritaður. Tafir hafa orðið á undirritun verksamnings vegna verkfallsins, en stefnt að undirritun á næstu dögum. 

Tilboð voru opnuð í lok apríl og ákvað umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar á fundi 2. maí að ganga til samninga við Lækjarsel ehf. um verkið. Í dag eru sex vikur liðnar frá því að ákveðið var að ganga til samninga við Lækjarsel, en framkvæmdir þó ekki hafnar. Nú síðast urðu tafir á vinnu við samninginn þar sem starfsmaður umhverfis- og mannvirkjasviðs var í verkfalli. 

Hlutverk Lækjarsels verður byggingarstjórn og uppsteypa, en fimm fyrirtæki á ýmsum sviðum munu vinna einstaka hluta verksins. Verkið sjálft er í stórum dráttum að brjóta upp tröppurnar, steypa nýjar, koma fyrir snjóbræðslukerfi, frárennsli, lýsingu í handrið, leggja nýjar hellur og setja upp handrið. 

Vilja vanda til verksins

Hér er þó um nokkuð óhefðbundið verk að ræða þar sem viðgerðir á tröppunum tengjast einnig húsnæðinu undir tröppunum (gamla náðhúsinu), göngustíg og aðgengi að Sigurhæðum og fleiru. Samkvæmt upplýsingum frá Guðríði Friðriksdóttur, sviðsstjóra umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar, er aðaláherslan á að vanda vel til verka og því gæti teygst úr framkvæmdatímanum, meðal annars vegna óvissuþátta og þar geti veðrið meðal annars haft áhrif. Samkvæmt útboðinu voru verklok áætluð 15. október. Mögulega gæti lokafrágangur beðið fram á næsta vor að sögn Guðríðar, ef veður hamlar slíku í haust. 

Samhliða framkvæmdum við tröppurnar sjálfar þarf að huga að húsnæðinu undir tröppunum, gömlu náðhúsunum, en sú fasteign er í eigu Regins fasteignafélags og kostnaður við endurbætur á tröppunum því að einhverju leyti greiddur af Regin.

Að sögn Böðvars Kristjánssonar, byggingafræðings hjá Lækjarseli ehf., er vonast til að samningagerðin verði kláruð í þessari eða næstu viku. Verklok voru upphaflega áætluð 15. október, en Böðvar bendir á að það hafi miðast við að vinna við verkið myndi hefjast í maí. Hann segir þó stefnt að því að hefja framkvæmdir strax og verksamningurinn hefur verið undirritaður. Guðríður Friðriksdóttir tók þó fram í samtali við Akureyri.net að ekki hafi verið reiknað með að vinna gæti hafist fyrr en í júní.

Lokað fyrir umferð um tröppurnar

Á meðan unnið verður við tröppurnar verður vinnusvæðið alveg lokað af og því engin umferð um tröppurnar eða göngustíginn að Sigurhæðum. Á dagskrá er að bæta aðgengi Sigurhæða þannig að hægt verði að fara þaðan upp og yfir á Eyrarlandsveg, en þar er um gamlan göngustíg að ræða að sögn Guðríðar, stíg þar sem hreinsa þurfi og fjarlægja gróður til að gera hann nothæfan. Tröppur liggja úr Hafnarstrætinu upp að Sigurhæðum, en ekki verður hægt að fara þá leið að vegna framkvæmda við stíginn sjálfan ofan við tröppurnar. 

Ferðamenn jafnt og íbúar munu því ekki geta gengið um kirkjutröppurnar frá því að framkvæmdir hefjast núna á næstu dögum og í einhverja mánuði. Hvort þær verða svo opnaðar að nýju í október eða ekki fyrr en næsta vor verður að koma í ljós.

Kirkjutröppurnar eru jafnan mikið notaðar og vinsæll viðkomustaður hjá ferðamönnum á sumrin, ekki síst þegar stór skemmtiferðaskip koma til Akureyrar. Ferðamenn ganga þá iðulega upp tröppurnar, skoða kirkjuna og fara áfram upp í Lystigarðinn. Á meðan á framkvæmdum stendur verða því settar upp merkingar til að sýna aðrar gönguleiðir að kirkjunni og Lystigarðinum. 


Séð frá Sigurhæðum upp að safnaðarheimilinu og Akureyrarkirkju. Þarna er gamall göngustígur sem verður hreinsaður og nýttur á meðan aðgengi að Sigurhæðum um stíginn og tröppurnar neðan úr Hafnarstrætinu verður lokað.

Séð niður að Sigurhæðum frá Akureyrarkirkju.


Tröppurnar sem liggja frá Sigurhæðum niður í Hafnarstræti. Þessi leið verður lokuð á meðan á framkvæmdum stendur þar sem stígurinn og handrið frá kirkjutröppunum að Sigurhæðum eru á meðal þess sem verður lagfært.

Verktakar sem munu koma að verkinu eru:

  • Finnur ehf. - Rif á núverandi tröppum, jarðvinna, hellulögn.
  • Rafmenn ehf. - Rafmagn, lýsing.
  • Lagnastýring ehf. - Pípulagnir, snjóbræsla og frárennsli.
  • Múriðn ehf. - Múrviðgerðir og tröppugerð.
  • Útrás ehf. - Handrið og önnur stálvinna.
  • Lækjarsel ehf. - Byggingarstjórn, uppsteypa.
  • Þakverk þakpappalagnir ehf. - Leggja þakpappa, vatnsverja og einangra