Fara í efni
Fréttir

Kæru Jóns Oddgeirs vegna Glerárgötu 7 hafnað

Strandgata 13a og Glerárgata 1. Á milli þeirra sést í Sjallann. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kæru Jóns Oddgeirs Guðmundssonar frá því í sumar vegna skipulagsbreytinga í tengslum við fyrirhugaða hótelbyggingu að Glerárgötu 7, á Sjallareitnum svokallaða. Jón Oddgeir er eigandi Glerárgötu 1 og Strandgötu 13a þar sem verslunin Litla húsið er.

Jón Oddgeir gerði ýmsar athugasemdir við breytingu á deiliskipulagi vegna Glerárgötu 7 þar sem helstu atriði voru hæð fyrirhugaðrar hótelbyggingar, verulega breytt ásýnd miðbæjar, grenndaráhrif og skuggavarp, neikvæð áhrif á verð fasteigna, röng samlagning lóðastærða og þar með rangar forsendur nýtingarhlutfalls.

Á móti voru helstu málsástæður Akureyrarbæjar að bæjaryfirvöld teldu að verðmæti lóða á miðbæjarsvæðinu muni aukast við uppbyggingu, sérstaklega á svæðum þar sem ástand hafi ekki verið til fyrirmyndar í langan tíma eins og eigi við um Glerárgötu 7. Í Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 sé gert ráð fyrir þéttingu byggðar í miðbænum, en ekki getið um hæð bygginga. Við deiliskipulagningu reitsins sé horft til hæða nærliggjandi bygginga. Eðlilegt teljist að þéttleiki og hæð byggðar í miðbæ sé meiri en í öðrum hverfum og geti fasteignaeigendur ekki gert ráð fyrir að byggingar í nágrenninu taki ekki breytingum. Þá sé hér ekki um að ræða verulegar breytingar frá upphaflegu deiliskipulagi.


Glerárgata 1 og austurendi Sjallans í baksýn. Mynd: Haraldur Ingólfsson. 

Skuggavarp er sagt verða í algjöru lágmarki þar sem lóðin sé norðan við fasteign kæranda og skuggavarp sem afleiðing af skipulagsbreytingu almennt leiði ekki til ógildingar deiliskipulags. Þar hafi skipulagsyfirvöld nokkuð svigrúm við mat á því hvað sé ásættanlegt skuggavarp hverju sinni. 

Varðandi samlagningu á stærðum lóða sem yrðu sameinaðar er bent á að eðlilegt sé að einhver munur sé á skráðri stærð lóða samkvæmt fasteignaskrá og tilgreindri stærð í deiliskipulagi, sérstaklega þegar gamlar lóðir eigi í hlut eins og hér. Til að mynda sé lóðin Glerárgata 5 skráð í samræmi við lóðarleigusamning frá 1930 og því eðlilegt að einhver skekkjumörk séu til staðar. Í þessu tilviki sé munurinn innan við einn hundraðshluta.

Umsækjandi um hina umdeildu deiliskipulasbreytingu tók undir sjónarmið og málsástæður Akureyrarbæjar og kom því á framfæri við nefndina.

Skemmst er frá að segja að úrskurðarnefndin hafnar kröfu Jóns Oddgeirs um ógildinu ákvörðunar bæjarstjórnar frá 6. júní 2023 um breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Akureyrar vegna Glerárgötu 7. Jafnframt bendir nefndin á að geti kærandi sýnt fram á tjón vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar geti hann átt rétt á bótum. Það álitaefni heyri hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum dómstóla.