Fara í efni
Fréttir

Júlímánuður heilsar með hellirigningu og kulda

Ferðamenn nýstignir á land við Torfunef á Akureyri í morgun eftir hvalaskoðun. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Hellirigning var á Akureyri í morgun og kalt í veðri. Eftir methlýjan júní, að því talið er – eins og Akureyri.net greindi frá hér í morgun – heilsar júlí ekki blíðlega. Svo virðist sem sumarið, sem gladdi svo mjög í júní, hafi brugðið sér frá í bili og ekki má eiga von á því til bæjarins aftur fyrr en um næstu helgi. Samkvæmt spánni nær hiti ekki tveggja stafa tölu aftur fyrr en undir kvöld á fimmtudag, reikna má með einhverri vætu áfram en þó engu í líkingu við úrhellið í morgun.

Margt ferðamanna er á Akureyri þessa dagana, skemmtiferðaskip í höfn dag hvern og fjöldi annarra einnig á ferð. Hvalaskoðun er jafnan vinsæl dægradvöl og sigldu bæði Hólmasól og Ambassador í morgun. Töluvert er af hval út með firði og ferðalangarnir ánægðir að sögn, þrátt fyrir veðrið.  

Stund milli ferða. Skipstjórar hvalaskoðunarbátanna Ambassadors og Hólmasólar í morgun; Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi ráðherra, og Bjarni Bjarnason, sá mikli aflaskipstjóri til áratuga. Ljósmyndir: Þorgeir Baldursson