Fara í efni
Fréttir

Akureyri: hlýjasti júní frá upphafi?

Veðrið var afar gott á Akureyri í júní, til dæmis á þjóðhátíðardaginn þegar fjölmenni kom saman í Lystigarðinum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur og eigandi blika.is, segir að nýliðinn mánuður sé hugsanlega hlýjasti júní á Akureyri frá upphafi mælinga.
 
„Meðalhitinn verður um 12,4°C í nýliðnum júnímánuði. 2014 mældust 12,2°C á Akureyri. Fara þarf 90 ár aftur í tímann til að finna júnímánuð sem stenst einhver samanburð eða til 1933. Til að byrja með reiknaðist hitinn þá 12,6°C. En vegna nokkuð augljósra vandkvæða sem voru við mælingarnar var talan löngu síðar leiðrétt í 12,3°C,“ skrifaði Einar á Facebook síðu sína í gær.  Veðurstofan kemur til með að kryfja þessi samanburðarmál eftir helgi og reikni fleiri áhugaverða tölur fyrir júní,“ bætir hann við.
 

Einar bendir ennfremur í þessu samhengi á skrif Trausta Jónssonar veðurfræðings í byrjun vikunnar um hitastig í júní.

„Nú velta menn því fyrir sér hvort júní verði methlýr á Akureyri. Fyrir 9 árum voru sömu vangaveltur uppi á teningnum á hungurdiskum [bloggsíðu Trausta]. Þá var spurningin hvort júníhiti þar næði 12 stigum. Hann gerði reyndar betur, fór í 12,2 stig og varð þar með næsthlýjastur allra júnímánaða. Hlýjastur var júní 1933, með 12,3 stig,“ skrifaði Trausti á bloggi sínu.

„Nú (að kvöldi 27. júní 2023) reiknast meðalhitinn við Lögreglustöðina á Akureyri 12,7 stig, vel yfir metinu. En næstu dagar verða heldur kaldari. Til að ná 12,4 stigum verður meðalhiti næstu þriggja daga að vera hærri en 10,0 stig - allgóður möguleiki er á því. Það flækir auðvitað málið að árið 1933 var mælt við gömlu símstöðina - tölurnar þaðan sýna 12,6 stig - en ekki 12,3 eins og núgildandi samræmd tafla. Það væri skemmtilegra ef nýtt (hugsanlegt) met yrði ofan við þá tölu,“ skrifaði Trausti.

Smellið hér til að lesa meira á bloggi Trausta.