Fara í efni
Fréttir

Jónas Þór viss um að fall sé fararheill

Jónas Þór Karlsson nýkominn á Akureyrarflugvöll í fyrstu ferð flugstrætós klukkan 7.40 í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Flugstrætó fór fyrstu ferðina um Akureyri í bítið. Starfsemin hófst formlega þegar Jónas Þór Karlsson ók af stað frá tjaldstæðinu á Hömrum; klukkan var þá gengin fimm mínútur í átta og strætóinn staðnæmdist við flugstöðina klukkan 7.40 eftir að hafa ekið hring um bæinn.

Óhætt er að segja að rólegt hafi verið í fyrstu ferðinni – enginn farþegi var um borð þegar vagninn kom á endastöð.

„Ég átti alveg eins von á því að lítið yrði að gera fyrst; ég þarf að koma starfseminni á kortið,“ sagði Jónas Þór við Akureyri.net þegar hann kom að flugstöðinni.

„Ég hef aðallega kynnt þetta á Facebook en líka rætt við Isavia og flugfélögin og Isavia er búið að setja upplýsingar um þjónustuna inn á vefinn hjá sér,“ segir Jónas.

Akstrinn hófst á Hömrum sem fyrr segir. „Ég ók um Hagahverfi og Naustahverfi, um Brekkuna, fór upp Þingvallastrætið, Hlíðarbraut og niður hjá Boganum, ók Stórholt og stoppaði síðast við Hof áður en ég fór hingað. Síðan fer ég sama hring til baka fljótlega eftir að vélarnar lenda.“

Jónas Þór verður á ferðinni alla daga og í tengslum við allar flugferðir, bæði innanlands- og millilandaflug. „Ég verð á ferðinni þegar Niceair fer í fyrsta flugið í fyrramálið. Þá fer ég af stað klukkan fimm til að skutla fólki hingað ef einhver vill – sem verður vonandi.“

Vagninn var eitt sitt í eigu Strætisvagna Akureyrar. „Hann var seldur út í Grímsey og notaður til að keyra fólk úr skemmtiferðaskipum en eigandinn er fluttur hingað inneftir og þegar ég sá að bíllinn var til sölu ákvað ég að slá til,“ segir Jónas Þór. Hann eignaðist vagninn fyrir um það bil einum og hálfum mánuði. „Það eru ekki nema tveir eða þrír mánuðir síðan ég ákvað að prófa að bjóða upp á þessa þjónustu og fór þá að leita að ökutæki.“

Fargjaldið í flugstrætó er 800 krónur fyrir fullorðna, 750 fyrir 13 til 17 ára og 500 krónur fyrir börn.

Engin bilbug er að finna á Jónasi þótt enginn farþegi hafi verið í fyrstu ferðinni. Fall sé vonandi fararheill. „Nei, nei, ég bjóst alveg eins við þessu, eins og ég sagði áðan, en þegar Niceair byrjar að fljúga og fólk sér að bílaplanið hér er fullt fer það kannski að hugsa um þennan valmöguleika. Ég renni dálítið blint í sjóinn, veit ekki hver þörfin er en veit þó að mikið hefur verið spurt um þessa þjónustu,“ sagði Jónas Þór Karlsson í morgun.

Smellið hér til að sjá tímatöflu flugstrætós, upplýsingar af heimasíðu Isavia

Strætó milli flugvallar og ýmissa staða í bænum