Fara í efni
Fréttir

Strætó milli flugvallar og ýmissa staða í bænum

Boðið verður upp á strætóferðir til og frá Akureyrarflugvelli frá og með 1. júní. Ekki nóg með það; vagninn mun aka hring um bæinn og tengja þannig saman bæjarhlutana, hótelin og tjaldsvæðið við flugvöllinn.

Oft hefur verið rætt og ritað um nauðsyn þess að Strætisvagnar Akureyrar byðu upp á ferðir á flugvöllinn en ekkert orðið úr. Nú er það hins vegar ekki hið opinbera sem tekur af skarið heldur Jónas Þór Karlsson, eigandi fyrirtækisins Sýsli - ferðir og ökukennsla, sem stígur skrefið sem margir hafa beðið eftir.

„Ég hef gengið með þetta í maganum lengi og nokkrir búnir að hvetja mig til að byrja á þessu. Ég ákvað svo að það væri góður tími til að byrja nú þegar Niceair byrjar að fljúga,“  sagði Jónas Þór við Akureyri.net.

Niceair hefur starfsemi í byrjun júní með flugi til Kaupmannahafnar, London og Tenerife en Jónas Þór tekur fram að strætisvagninn verði ekki bara á ferðinni þegar vélar Niceair komi og fari heldur sé einnig stefnt að því að hann aki í tengslum við áætlunarflug innanlands.

Fyrirtækis Jónasar, Sýsli - ferðir og ökukennsla, heldur úti dagsferðum með ferðamenn um Norðurland og býður upp á þjónustu fyrir fólk í hjólastólum, bæði bæjarbúa og ferðamenn, auk þess að sinna ökukennslu. Akstur til og frá og flugvelli og um bæinn verður tilraunaverkefni í sumar en Jónas vonar að svo vel takist til að hægt verði að bjóða upp á þjónustuna til frambúðar.

Strætisvagninn sem Jónas Þór mun nota í ferðirnar til og frá flugvellinum.