Ísland - Danmörk: bein útsending kl. 14

Ísland og Danmörku mætast í átta liða úrslitum heimsmeistarakeppni landsliða 19 ára karla í handbolta í dag. Leikurinn hefst kl. 14.00 og hægt er að horfa á beina útsendingu á youtube rás alþjóða handboltasambandsins, IHF. Smellið á myndina hér að neðan til að horfa.
Keppnin fer fram í Egyptalandi og tveir Akureyringar, KA-mennirnir Dagur Árni Heimisson (sem gekk til liðs við Val í sumar) og Jens Bragi Bergþórsson verða í eldlínunni í Kaíró í dag. Dagur Árni er fyrirliði liðsins og í lykilhlutverki í sókninni sem leikstjórnandi. Hann er í treyju númer 13 og Jens Bragi, sem leikur á línunni, er nr. 22.
Sigurliðið leikur í undanúrslitum á morgun, föstudag, en tapliðið leikur sama dag í krossspili um sæti fimm til átta. Íslendingar komust í átta liða úrslit eftir sigur á Spánverjum í vikunni – þar sem lokamínútan var ævintýri líkust, eins og lesa má um hér og hér á handbolta.is og sjá upptöku af þeim leikkafla.
Danir töpuðu fyrir Svíum með eins marks mun eftir framlengingu í úrslitaleik Evrópumóts 18 ára landsliða á síðasta ári og uppistaðan í danska liðinu er silfurliðið frá EM í fyrra – sjá nánar hér á handbolta.is. Ísland hafnaði í fjórða sæti á EM 18 ára í fyrra eftir grátlegt tap fyrir Ungverjum í bronsleiknum þar sem framlengingu þurfti til að knýja fram úrslit.
Smellið á myndina til að horfa á leik Íslands og Danmerkur.